Erlent

Ó­eirðir í Southport eftir mann­skæðu á­rásina

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lögreglubíll stóð í ljósum logum í Southport í kvöld. 
Lögreglubíll stóð í ljósum logum í Southport í kvöld.  AP

Hópur öfgahægrimanna safnaðist saman fyrir utan mosku í bænum Southport í Norður-Englandi í kvöld, þar sem þrjár stúlkur voru stungnar til bana á dansnámskeiði í gær. Mótmælendur köstuðu flöskum og grjóti í lögreglumenn og kveiktu í lögreglubíl. 

Yfir þúsund manns mættu á minningarathöfn vegna andlátanna, sem var haldin í Southport í kvöld.

Skömmu eftir að henni lauk segir BBC frá því að mótmæli hafi brotist út fyrir utan mosku nálægt staðnum sem stunguárásin var framin í gær. Mótmælendur eru sagðir hafa kastað múrsteinum og grjóti í moskuna og lögreglumenn. Þá segir að einn lögreglumaður hafi nefbrotnað í átökunum.

Á vef Guardian segir að minnst einn hafi verið handtekinn í mótmælunum og lögregla hafi lagt hald á eggvopn sem mótmælandi hafði í fórum sínum. 

Í umfjöllun Sky News segir að bresku öfgahægrisamtökin EDL, sem eru þekkt fyrir múslimaandúð, séu grunuð um að standa að baki mótmælanna. Þá hefur Sky eftir lögreglu að fjöldi lögreglumanna hafi meiðst í óeirðunum, kveikt hafi verið í bílum og brotist hafi verið inn í verslun. 

Lögregluyfirvöld í Southport hafa biðlað til fólks að gera sér ekki upp tilgátur um árásarmanninn, sem er sautján ára gamall. Hann er í haldi lögreglu en nafn hans er ekki gefið upp sökum þess að hann er undir lögaldri. 

Hann fæddist í Cardiff en foreldrar hans eru innflytjendur frá Rúanda. Síðustu ár bjó fjölskyldan í þorpi nærri Southport. Nágrannar segja árásarmanninn hafa verið einrænan en ekkert hefur verið gefið upp um hvað honum gekk til.

Fjöldi lögreglumanna er sagður hafa hlotið áverka í átökunum. AP

Lögreglan í Merseyside segir frá því á X að liðsauki frá Norður-Wales, Lancashire, Manchester og Cheshire hafi verið kallaður til Southport í þeim tilgangi að hjálpa til við að ná stjórn á ástandinu. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×