Innlent

Hringvegurinn opinn á ný

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Skálmarbrú seinni partinn í gær.
Skálmarbrú seinni partinn í gær. Sveinbjörn Darri Matthíasson

Hringvegurinn við Skálm hefur verið opnaður á ný eftir rúmlega sólarhringslanga lokun. Jökulhlaup varð úr Mýrdalsjökli seinni partinn í gær sem leiddi til þess að vegurinn fór undir vatn. Búið er að opna veginn með þeim takmörkunum að hann er einbreiður.

Á fimmta tímanum í dag var tilkynnt að vegurinn yrði opnaður á ný eftir klukkan átta í kvöld. Hann er nú opinn fyrir umferð, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar klukkan 20:55. 

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að umferð sé eingöngu opin um eina akrein og umferð verði því stjórnað á vettvangi. Vegfarendur eru beðnir um að sýna starfsfólki á vettvangi tillitssemi og virða merkingar og fyrirmæli.

Fyrst um sinn verði opið fyrir umferð að austanverðu og þegar stærsti hluti bílaraðarinnar verði kominn yfir kaflann verði bílum að vestanverðu hleypt austur yfir. Það geti tekið um hálftíma. Seinna í kvöld verði stefnt að ljósastýringu yfir brúna.

Fjöldinn allur af ferðamönnum hefur beðið við Laufskálavörðu, austan megin við Skálm, eftir að þjóðvegurinn opni. Útlit er fyrir enn lengri bið þar sem vegurinn er einungis opinn í eina átt í senn.

Seinni partinn í dag greindi lögreglan á Suðurlandi frá því á Facebook að búið væri að aflétta lokunum um Sólheimajökulsveg, Hrífunesveg og Öldufellsleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×