Viðskipti innlent

Hagnaður Arion banka dregst saman milli ára

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka. Vísir/Vilhelm

Hagnaður Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2024 var 5,5 milljarðar, samanborið við 7,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrstu sex mánuði ársins var 9,9 milljarðar, samanborið við 13,4 milljarða fyrstu sex mánuði 2023. Bankastjóri segir margt gott í uppgjöri bankans þrátt fyrir að arðsemismarkmiði hafi ekki verið náð.

Arðsemi eiginfjðár bankans var 11,5 prósent á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 15,5 prósent árið 2023. Kjarnatekjur jukust um eitt prósent í samanburði við 2023.

Rekstrarkostnaður jókst um 19,1 prósent samanborið við annan ársfjórðung 2023, að stórum hluta vegna sáttar við Fjármálaeftirlitið og greiðslu sektar, en Arion banka var gert að greiða Seðlabankanum 585 milljónir króna í sekt í júní.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir margt gott í uppgjörinu þrátt fyrir að 13 prósenta arðsemismarkmiði hafi ekki verið náð.  Góður vöxtur sé í innlánum og vaxtatekjur hafi aukist milli fjórðunga.

„Eitt af því sem hafði áhrif á arðsemi fjórðungsins er sátt sem bankinn gerði við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands undir lok annars ársfjórðungs þar sem bankinn féllst á að greiða sekt að upphæð 585 milljónir króna. Hefði ekki komið til þessarar sáttargreiðslu þá hefði arðsemi bankans á fjórðungnum numið 12,7%,“ segir Benedikt.

Lausafjárstaða bankans sé mjög góð og gott jafnvægi í fjármögnun.

Áhugasamir geta skoðað ársuppgjörið betur hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×