Innlent

Opnun Sorpu frestað vegna ölvaðs manns með há­reysti

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þónokkuð löng röð bíla myndaðist við inngang stöðvarinnar en fresta þurfti opnun hennar vegna málsins.
Þónokkuð löng röð bíla myndaðist við inngang stöðvarinnar en fresta þurfti opnun hennar vegna málsins. Vísir

Tafir urðu á opnun grenndarstöðvar Sorpu í Ánanaustum vegna manns sem var með háreysti við inngang stöðvarinnar. Þónokkrir gestir þurftu að bíða í röð vegna afskipta lögreglu af manninum en hann var einnig undir áhrifum.

Atvikið átti sér stað rétt fyrir hádegi þegar opnar á stöðinni. Samskiptastjóri Sorpu, Gunnar Dofri Ólafsson, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Hann segir manninn hafa verið með poka með flöskum og dósum og því megi leiða að því líkum að hann hafi ætlað að nýta sér þjónustu grenndarstöðvarinnar en að málið tengist Sorpu ekki að öðru leyti.

Í vetur var greint frá því að Sorpa hafi gripið til þess ráðs að ráða öryggisverði við endurvinnslustöðina á Ánanaustum vegna þess að óprúttnir aðilar hafi verið að sækjast í verðmæti á stöðina, bæði flöskur, dósir og raftæki.

„Þeir hafa brugðist þannig við afskiptum starfsfólks okkar að við töldum ástæðu til þess að kalla eftir auknu öryggi á þessari tilteknu stöð,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi í desember í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×