Innlent

Fé­lag í eigu rabbína keypti Framsóknarhúsið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Félag í eigu Avrahams hefur eignast Framsóknarhúsið.
Félag í eigu Avrahams hefur eignast Framsóknarhúsið. vísir

Félag í eigu rabbínsins Avraham „Avi“ Feldham hefur fest kaup á Framsóknarhúsinu á Hverfisgötu. Hann flutti hingað til lands árið 2018 til þess að koma fyrstu íslensku sýnagógunni á laggirnar. 

Neðri hæð Framsóknarhússins hefur verið tóm um nokkurt skeið, eða frá því að skemmtistaðurinn Miami á Hverfisgötu lagði upp laupana í júlí árið 2022. Mbl.is greinir nú frá því að húsið í heild sinni hafi verið keypt af einkahlutafélaginu LG50, í eigu Avraham.

Húsið var skráð til sölu í ágúst á síðasta ári en hafði þá verið falt í rúm fjögur ár. Hefur það verið í eigu Framsóknarflokksins frá árinu 1998 en það var byggt árið 1965.

Félag Avraham var skráð árið 2022 en Avraham er sjálfur framkvæmdastjóri miðstöðvar gyðinga á Íslandi.

Avraham kom til landsins ásamt fjölskyldu sinni árið 2018 til að skapa ný tækifæri fyrir gyðingasamfélagið á Íslandi, þá fyrsti rabbíninn með fasta búsetu á Íslandi. 

Í samtali við fréttastofu árið 2021 sagði Avi gyðingasamfélagið á Íslandi telja um 500 til 600 manns.

Árið 2018 tjáði hann fréttastofu að sýnagógan muni gagnast þeim 250 gyðingum sem ætlað er að búi hér á landi en hún mun tilheyra Chabad-Lubavitch söfnuðinum.

Ekki náðist í Avraham við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir

Miami lokað og nýs eiganda leitað

Skemmtistaðurinn Miami á Hverfisgötu hefur verið lokaður frá byrjun júlí og nú er nýs eiganda leitað til þess að taka við rekstri skemmtistaðarins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×