Viðskipti innlent

Leigu­verð heldur á­fram að hækka

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Vísitala leiguverðs hefur hækkað um þrettán prósent síðastliðið ár.
Vísitala leiguverðs hefur hækkað um þrettán prósent síðastliðið ár. Vísir/Arnar

Vísitala leiguverðs hækkaði um 2,5 prósent í júní, og mælist því árshækkun vísitölunnar um þrettán prósent. Vísitala leiguverðs hefur hækkað talsvert umfram verðbólgu og íbúðaverð á síðastliðnu ári.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í dag.

Þar segir að á ársgrundvelli hafi vísitala leiguverðs hækkað um þrettán prósent frá því í júní í fyrra á sama tíma og verðbólga hafi mælst 5,8 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkað um 9,1 prósent. Því hafi leiguverð hækkað talsvert umfram bæði almennt verðlag og hækkun íbúðaverðs.

Leiguverð hefur rokið upp á þessu ári, en það sem af er ári hefur vísitalan hækkað um 9,6 prósent, sem jafngildir tæplega 25 prósent hækkun á ársgrundvelli. 

Fjögurra herbergja íbúðir hækkað um sautján prósent

Á meðfylgjandi mynd má sjá miðgildi fermetraverðs eftir herbergjafjölda leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum tólf mánuðum.

Á síðustu tólf mánuðum hafa tveggja herbergja íbúðir hækkað um 15,7 prósent, þriggja herbergja um 12,7 prósent og fjögurra herbergja um 17 prósent sé miðað við miðgildi fermetraverðs.

HMS

Við alla útreikninga á vísitölu leiguverðs á höfuðborgarvæðinu er byggt á leigusamningum um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×