Fótbolti

Víkingar með augun á leik í Albaníu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar fá annað tækifæri til að komast áfram í Evrópukeppninni.
Víkingar fá annað tækifæri til að komast áfram í Evrópukeppninni. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Víkingar komust ekki áfram í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi en fá annað tækifæri í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Þeir fá þó ekki að vita um væntanlegan mótherjann sinn fyrr en í kvöld.

Víkingsliðið mætir annað hvort Borac Banja Luka frá Bosníu eða Egnatia frá Albaníu í næstu umferð.

Það er æsispennandi staða í þeirri viðureign en Bosníumennirnir unnu 1-0 heimasigur í fyrri leiknum.

Sigurmarkið kom þó ekki fyrr en á sjöttu mínútu í uppbótatíma. Það skoraði Damir Hrelja með skalla eins og sjá má hér fyrir neðan.

Borac Banja Luka varð bosnískur meistari á síðustu leiktíð en liðið hafði fallið út úr fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar síðustu tvö tímabil, 2022 á móti færeyska liðinu B36 Tórshavn og í fyrra á móti Austria Vín frá Austurríki.

KF Egnatia varð albanskur meistari á síðustu leiktíð en það var í fyrsta sinn sem félagið vinnur þann titil. Liðið datt úr á móti armenska félaginu Ararat-Armenia í fyrstu umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra.

Eins og á móti Írunum í Shamrock Rovers þá spila Víkingar fyrri leikinn á heimavelli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×