Fótbolti

Líflátshótunum rignir yfir Víkinga: „Djöfull er þetta lasið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá Arnar Gunnlaugsson hughreysta Nikolaj eftir leikinn í gær. 
Hér má sjá Arnar Gunnlaugsson hughreysta Nikolaj eftir leikinn í gær. 

„Jæja næstu 50 mínútur fara í að eyða líflátshótunum og ógeðslegum kommentum á Facebook/Instagram/Twitter síðum Víkings,“ segir Hörður Ágústsson sem sér um samfélagsmiðla knattspyrnuliða Víkinga, eftir tap liðsins gegn Shamrock Rovers í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Þar vísar hann til þess að ósáttir menn, sem höfðu veðjað á leikinn, væru allt annað en sáttir með Nikolaj Hansen sem misnotaði vítaspyrnu í uppbótartímanum í gærkvöldi. Vítaklúðrið þýddi að heimamenn í Shamrock Rovers unnu leikinn 2-1 og fóru áfram í næstu umferð.

Ef Hansen hefði skorað hefði leikurinn farið 2-2 og mögulega einhverjir sett pening á jafntefli, að skoruð yrði fleiri en 3,5 mörk í leiknum eða hvað sem hægt er að veðja á.

„Allt frá aðilum sem voru að veðja á leikinn. Djöfull er þetta lasið,“ segir Hörður á X-inu.

„Þetta er svona sama hvernig leikir fara. Ekkert hægt að gera nema eyða mörgum klukkutímum á viku í þetta til að gerpi sem hóta ofbeldi/morði fái ekki að koma nálægt einhverju sem snýst ekkert um íþróttina sem þessi fífl eru að veðja á.“

Heimamenn komust í 2-0 í fyrri hálfleiknum í gærkvöldi með tveimur mörkum frá sóknarmanninum Johnny Kenny. Daninn Nikolaj Hansen minnkaði muninn í 2-1 með fínum skalla í síðari hálfleiknum og fékk síðan tækifæri til að jafna leikinn og knýja fram framlengingu. En skaut í stöng eins og sjá má hér að neðan.

Klippa: Mörkin og vítaklúðrið í leik Shamrock Rovers og Víkings



Fleiri fréttir

Sjá meira


×