Handbolti

Össur með tólf mörk í öðrum sigri strákanna í Slóveníu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Össur Haraldsson skoraði tólf mörk gegn Póllandi.
Össur Haraldsson skoraði tólf mörk gegn Póllandi. hsí

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri vann góðan sigur á Póllandi, 37-32, í öðrum leik sínum á EM í Slóveníu.

Íslendingar unnu 27 marka risasigur á Úkraínumönnum í gær, 49-22, en leikurinn í dag var öllu meira krefjandi fyrir íslensku strákana. Þeir voru þó lengst af með góð tök á leiknum og sigurinn var sannfærandi.

Pólverjar voru með forystuna framan af leik en Íslendingar náðu undirtökunum um miðbik fyrri hálfleiks. Þeir leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 19-16.

Ísland skoraði fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komst fimm mörkum yfir, 21-16. Pólska liðið gafst ekki upp og minnkaði muninn niður í tvö mörk. En íslenska liðið hleypti því pólska ekki nær, steig aftur á bensíngjöfina og vann á endanum fimm marka sigur, 37-32.

Össur Haraldsson, leikmaður Hauka, fór á kostum í íslenska liðinu og skoraði tólf mörk í þrettán skotum. Elmar skoraði sex mörk og Hinrik Hugi Heiðarsson og Reynir Þór Stefánsson sitt hvor fimm mörkin.

Ísland og Svíþjóð eru bæði með fjögur stig og mætast á laugardaginn í úrslitaleik um efsta sætið í F-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×