Innlent

Eig­andi stakk af eftir að hundur beit konu með ung­barn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Aleksandra segir atvikið hafa verið þeim mæðginum mikið áfall. 
Aleksandra segir atvikið hafa verið þeim mæðginum mikið áfall.  Getty/Aðsend

Þýskur fjárhundur, sjeffer, réðst á konu sem var á gangi með ungbarn sitt í Árbænum í síðasta mánuði með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á hendi. Konan segir eigandann hafa flúið vettvang og hunsað beiðni hennar um að hringja á sjúkrabíl.

Þann 13. júní var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um hund sem hafði bitið konu í Árbænum og sjúkrabíll kallaður til. Dýraverndarþjónustu Reykjavíkur var tilkynnt um málið. Þetta staðfestir Hjördís Sigurbjartsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. 

Aleksandra Demovic Slaveski er konan sem um ræðir. Þýskur fjárhundur, sjeffer, réðst að henni og sextán mánaða gömlum syni hennar þegar þau voru á göngu heim úr matvöruverslun rétt fyrir hádegi.

Lét sig hverfa með hundana

Í samtali við fréttastofu segir hún frá því að kona með tvo hunda af sömu tegund hafi orðið á vegi þeirra á göngustígnum. Mæðginin hafi fært sig yfir á grasblett við hliðina á gangstéttinni til að halda hæfilegri fjarlægð meðan þau tóku fram úr henni. Skyndilega hafi annar hundurinn stokkið að syni hennar og ætlað að bíta í fótlegg hans. 

„Ég rétt náði að snúa mér og færa hann frá hundinum. Þá beit hundurinn mig í hendina og það liðu nokkrar sekúndur þar til hann sleppti,“ segir Aleksandra. Þá hafi mæðginin fallið í jörðina. 

Hún segir eigandann ekki hafa verið að fylgjast með og ekki vitað hvað væri í gangi fyrr en hún hóf að hrópa. Þegar eigandinn áttaði sig á því hvað hefði skeð hafi hún forðað sér burt. 

„Eigandinn gerði ekki neitt, hringdi ekki í neinn. Hún var greinilega að reyna að koma hundunum heim. Ég bað hana um að hringja á sjúkrabíl, sem hún gerði ekki,“ segir Aleksandra. 

Ábyrgðin hvíli á eiganda

Aleksandra hlaut áverka á hendi og var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann í Fossvogi. Þar voru teknar röntgenmyndir og skurðurinn saumaður. Sonurinn slapp sem betur fer án meiðsla. 

„Þetta hefði verið enn verra hefði ég ekki haldið á honum. Maður býst ekki við hættu af þessu tagi,“ segir Aleksandra og bendir á að í nágrenninu eru skólar og leikskólar og börn oft ein á ferð. 

Hún áréttir að ekki sé við hundana að sakast. Sjálf sé hún mikill hundavinur og hafi nærri alltaf átt hund. 

„En það hefði átt að vera búið að temja hundana. Það er á ábyrgð eigandans. Hún hefði átt að biðjast afsökunar, eða að minnsta kosti hringja í sjúkrabíl,“ segir Aleksandra og að hún stefni á að lögsækja hundaeigandann. 

Hundsbitum fari fjölgandi

Málum þar sem hundar bíta fólk og önnur dýr á höfuðborgarsvæðinu fer fjölgandi að sögn deildarstjóra hjá Dýraþjónustu Reykjavíkur. Þá fjölgi slíkum atvikum yfir sumartímann. 

Nýlega fjallaði Vísir um mál þegar óður hundur af tegundinni Standard Schnauzer réðst á konu og karlmann á sjötugsaldri í sameign íbúðarhúss í Grafarvogi. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús með áverka á hendi. 

Þá hefur Dýraþjónusta Reykjavíkur til skoðunar mál tveggja veiðihunda sem grunaðir er um að hana banað ketti í Laugardal í síðasta mánuði. Sömu hundar eru grunaðir um að hafa drepið tvo ketti áður. 


Tengdar fréttir

Blóð á veggjum og gólfi og maður fluttur með sjúkra­bíl

Einn var fluttur á sjúkrahús með skurð á hendi eftir að óður hundur réðst á konu og karlmann í stigagangi fjölbýlishúss í Grafarvogi á föstudagskvöld. Konan og karlmaðurinn eru á sjötugsaldri og voru með hundinn í pössun.

Tveir veiðihundar í haldi Dýraþjónustunnar

Dýraþjónusta Reykjavíkur sótti í gær tvo hunda sem gengu lausir í Laugardalnum í Reykjavík. Hundar af sömu tegund og frá sama eiganda eru grunaðir um að hafa drepið kött í hverfinu í síðustu viku.

Hunds­bitum fari fjölgandi

Deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg segir málum þar sem hundar bíta fólk og önnur dýr fara fjölgandi. Hann hefur áhyggjur af því hversu margir trassa að skrá hunda hjá sveitarfélögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×