Fótbolti

Koeman sakar VAR um að skemma fót­boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane lá lengi eftir í grasinu.  Ronald Koeman var mjög ósáttur með ákvörðun Felix Zwayer og myndbandsdómaranna.
Harry Kane lá lengi eftir í grasinu.  Ronald Koeman var mjög ósáttur með ákvörðun Felix Zwayer og myndbandsdómaranna. Getty/Richard Pelham

Hollendingum fannst á sér brotið þegar þeir töpuðu 2-1 á móti Englandi í undanúrslitaleik Evrópumótsins í fótbolta í gærkvöldi.

Ronald Koeman, þjálfari hollenska landsliðsins, var mjög ósáttur með þá ákvörðun myndbandsdómara að láta dómara leiksins fara í skjáinn sem endaði með því að Englendingar fengu víti.

Atvikið varð þegar Harry Kane átti skot að marki en Denzel Dumfries fór í hann eftir að skotið var farið yfir.

Hingað til hafa dómarar ekki verið að dæma á svona atvik og í margra augum var þarna verið að nota myndbandsdómgæsluna til að dæma leikinn en ekki leiðrétta mistök dómara.

Eftir leikinn sakaði Koeman myndbandsdómsgæsluna, VAR, um að skemma fótboltann.

„Að mínu mati þá átti þetta ekki að vera vítaspyrna,“ sagði Koeman. Breska ríkisútvarpið fjallar um viðbrögð hollenska þjálfarans.

„Hann sparkaði í boltann og skórnir þeirra snertast. Mitt mat er að við getum ekki spilað almennilegan fótbolta lengur og það er út af VAR. Þetta er að skemma fótboltann,“ sagði Koeman.

Kane jafnaði metin úr vítinu, kom enska liðinu aftur inn í leikinn og Englendingar skoruðu síðan sigurmarkið í uppbótartíma.

Gary Neville, fyrrum landsliðsmaður Englands og knattspyrnusérfræðingur í dag, var sammála því að Hollendingar hefðu fullan rétt á því að vera mjög ósáttir með þennan dóm.

„Sem gamall varnarmaður þá finnst mér þetta vera skammarleg ákvörðun. Það er ekki möguleiki að þetta sé víti. Hann er bara að reyna að komast fyrir skotið. Þetta var ekki víti,“ sagði Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×