Erlent

Hiti yfir 46 stigum fimm daga í röð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ferðamenn sem freistast til að skoða borgina í hitanum nota gjarnan regnhlíf til að hlífa sér fyrir sólargeislunum. 
Ferðamenn sem freistast til að skoða borgina í hitanum nota gjarnan regnhlíf til að hlífa sér fyrir sólargeislunum.  AP

Í borginni Las Vegas í Bandaríkjunum hefur hiti mælst hærri en 46 stig fimm daga í röð. Er þetta metfjöldi samfelldra daga þar sem hiti mælist svo hár í borginni. 

Skömmu eftir klukkan eitt á staðartíma skreið hiti upp fyrir 46 gráður á Harry Reid flugvellinum, fimmta daginn í röð. Þar með var tuttugu ára gamalt met slegið en í júlí 2005 mældist hiti svo hár fjóra daga í röð.

Hitabylgja herjar nú á vesturhluta Bandaríkjanna en á sunnudag var hitamet slegið í Las Vegas þegar hiti mældist 48,8 gráður. 

Í umfjöllun Guardian er haft eftir veðurfræðingi að hitabylgjan sé sú svæsnasta í borginni síðan mælingar hófust árið 1937. 

Þá kemur fram að margir íbúar hætti sér einungis út úr húsi snemma á morgnanna. Það sé einfaldlega of heitt til að spóka sig utandyra yfir hábjartan daginn. Sérstakar kælingamiðstöðvar hafi verið opnaðar í samkomuhúsum víðs vegar í Suður-Nevada. Þangað geti til að mynda heimilislausir leitað til að kæla sig niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×