Erlent

Clifford hand­tekinn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Umfangsmikil leit fór fram í Lundúnum í dag. 
Umfangsmikil leit fór fram í Lundúnum í dag.  AP

Kyle Clifford, maðurinn sem leitað var í dag vegna gruns um að hafa átt þátt í dauða þriggja kvenna er fundinn. Lögreglan í Hertfordshire handtók Clifford og kom honum undir læknishendur síðdegis í dag. 

Lögregla handtók Clifford í bænum Enfield í norðurhluta Lundúna eftir umfangsmikla leit. Í frétt BBC kemur fram að hann hafi verið með áverka þegar lögregla náði haldi á honum. Ekki hafi þurft að beita skotvopnum. 

Með frétt Sky News um málið fylgir myndband af lögreglu að leiða Clifford í járnum úr kirkjugarði í Enfield. 

Talið er að Clifford hafi þekkt konurnar þrjár sem hann er sagður hafa átt þátt í að myrða. BBC staðfesti fyrr í dag að konurnar eru fjölskylda íþróttafréttamannsins John Hunt, sem starfar hjá miðlinum. 

Lögregla staðfesti á blaðamannafundi að þær hafi verið 25 ára, 28 ára og 61 árs. Árásin hafi beinst gegn þeim og ekki verið handahófskennd. 

Clifford, sem er 26 ára, er talinn hafa verið vopnaður lásboga, en samkvæmt lögreglu gæti öðrum vopnum einnig hafa verið beitt.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×