Fótbolti

„Fyrir framan okkar á­horf­endur erum við allt annað lið og þeir munu sjá það“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stephen Bradley var alls ekki ósáttur með markalaust jafntefli í kvöld og segir Shamrock Rovers ætla að sýna hvað í þeim býr í næstu viku.
Stephen Bradley var alls ekki ósáttur með markalaust jafntefli í kvöld og segir Shamrock Rovers ætla að sýna hvað í þeim býr í næstu viku. The Irish Independent

Stephen Bradley segir sína menn í Shamrock Rovers hafa fengið færi til að stela sigrinum gegn Víkingi í kvöld. Liðin mætast aftur eftir viku og þar munu Írarnir sýna allt aðra hlið. 

„Ekkert endilega [sáttur með jafnteflið], við hefðum kannski átt að vinna þetta undir lokin miðað við færið sem við fengum, en ánægður að fara til Dyflinnar með stöðuna markalausa og það verður allt öðruvísi leikur,“ sagði þjálfarinn strax eftir leik. 

Shamrock lagði upp með leikplan sem gekk nokkuð vel. Lágu langt til baka, mjög þéttir og fengu svo besta færi leiksins undir blálokin eftir skyndisókn. 

„Við vörðumst virkilega vel, vorum agaðir og fengum tvö bestu færi leiksins. Eins og ég segi var þetta öðruvísi en við spilum vanalega en það verður allt öðruvísi í Dyflinn í næstu viku.“

Rauða spjaldið rétt ákvörðun

Darragh Nugent var rekinn af velli, braut af sér og fékk svo að líta annað gult spjald fyrir leikaraskap. Stephen var ekkert að andmæla þeirri ákvörðun. 

„Já, ég held að það hafi bara verið rétt ákvörðun.“

Verður allt annað í Dyflinn

Liðin mætast aftur eftir viku á Tallaght leikvanginum í Dyflinn. Þar munu Shamrock Rovers ekki liggja eins langt til baka og sýna betur hvað í þeim býr. 

„Stundum þurfum við að gera það, en við munum þurfa að keyra á þá. Í Dyflinn, fyrir framan okkar áhorfendur erum við allt annað lið og þeir munu sjá það í næstu viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×