Fótbolti

„Þetta tók á ég get al­veg verið hrein­skilin með það“

Aron Guðmundsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona í fótbolta
Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona í fótbolta vísir/Sigurjón

Ingi­björg er einn reynslu­mesti leik­maður ís­lenska lands­liðsins og eftir stutta dvöl í Þýska­landi hjá Duis­burg er hún nú í leit að næsta ævin­týri á at­vinnu­manna­ferlinum og viður­kennir að undan­farnir mánuðir hafi reynst sér erfiðir innan sem utan vallar.

„Já það er bara staðan. Ég er að leita að nýju fé­lagi,“ segir Ingi­björg í sam­tali við Vísi. „Ég er bara ró­leg þar. Bíð eftir því rétta fyrir mig.“

Bíða eftir því rétta segir þú. Hvað myndi það fela í sér? Hvað ertu að horfa helst til í þessu næsta skrefi á þínum ferli?

„Maður vill alltaf gera betur og fara í eitt­hvað stærra. Eitt­hvað sem að ýtir að­eins á mann í því að verða betri. Ég er bara horfa til þessa stærstu deilda og reyna komast í eins gott lið og ég get.“

Enn að melta þetta

Ó­hætt er að segja að það tæpa hálfa ár sem Ingi­björg varði hjá Duis­burg í þýsku úr­vals­deildinni hafi verið erfitt en þar sótti liðið að­eins fjögur stig í 22 leikjum og endaði í neðsta sæti.

Grind­víkingurinn gekk til liðs við þýska fé­lagið frá Vålerenga í Noregi eftir ára­mót á róstu­sömum tíma sem reyndist krefjandi innan sem og utan vallar. En hvernig horfir hún nú á á­kvörðunina um að halda til Duis­burg á sínum tíma?

„Það er erfitt að segja. Ég er svo ný­komin út úr þessu. Það eru náttúru­lega bara ó­trú­lega margar til­finningar sem að fylgja því verk­efni. Þetta var gríðar­lega erfiður tími. Bæði fót­bolta­lega séð og per­sónu­lega. Ég er ein­hvern veginn enn þá bara að melta þetta.“

Þetta hefur tekið á?

„Þetta tók á. Ég get alveg verið hrein­skilin með það.“

„Fæ gæsa­húð þegar að þú segir þetta“

Sem fyrr er Ingi­björg þó mikil­vægur hluti af ís­lenska lands­liðinu og stendur þar sína plikt stolt ú vörninni.

Ingibjörg Sigurðardóttir á að baki 63 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.Getty

Fram­undan eru tveir síðustu leikir liðsins í undan­keppni EM. Sá fyrri hér heima á Laugar­dals­velli gegn Þýska­landi á föstu­daginn og nokkrum dögum síðar fer loka­leikurinn fram gegn liði Pól­lands ytra. Sigur í öðrum hvorum leiknum tryggir sæti Ís­lands á EM næsta árs í Sviss.

Komandi þá inn í þetta lands­liðs­verk­efni. Það hefur gengið vel og mögu­leiki núna á föstu­daginn til að tryggja EM-sætið með sigri á Þýska­landi á heima­velli. Það myndi varla gerast mikið sætara en að leggja Þjóð­verjana af velli hér og tryggja EM sætið er það?

„Þegar að þú segir þetta fæ ég gæsa­húð. Við stefnum að þessu. Erum búnar að leggja ó­trú­lega hart að okkur í því að koma okkur í þessa stöðu. Að vera á heima­velli á föstu­daginn á móti Þýska­landi verður krefjandi verk­efni en við höfum trú á okkur.“

Er það ekki líka bara til­finningin að liðið hefur verið að taka góð skref fram á við í gegnum þessa undan­keppni?

„Al­gjör­lega. Við erum mjög stoltar af liðinu og það er sér­stak­lega gaman að fylgjast með ungu stelpunum koma inn í þetta með gríðar­legan kraft og þær taka á­byrgð. Ég er mjög stolt.“

Leikur Ís­lands og Þýska­lands á föstu­daginn kemur verður fjórði leikur liðanna á innan við ári og á Ís­land enn eftir að sækja sigur í greipar þeirra þýsku.

Frá leik Þýskalands og Íslands fyrr í undankeppninni í Aachen. Hér má sjá Glódísi Perlu Viggósdóttur í baráttunni við Klöru Bühl, samherja sinn hjá Bayern München.Sebastian Christoph/AP

Þjóð­verjarnir unnu fyrri leik liðanna í undan­keppninni í Aachen en hvað þarf ís­lenska liðið að gera til þess að sækja sigurinn á föstu­daginn?

„Í fyrsta lagi að reyna halda markinu hreinu. Þær eru með ó­trú­lega góða leik­menn inn í boxinu ef þær komast í fyrir­gjafa­stöðu. Við þurfum að vera klárar að verjast því. Þær eru með góða leik­menn á borð við Leu Schüller, Alexöndru Popp og ég gæti talið þær allar upp. Allir þeirra leik­menn eru góðir og við þurfum að vera klárar og nýta tæki­færin okkar.“

Hversu miklu máli skiptir það að Laugar­dals­völlurinn verði þétt­pakkaður á föstu­daginn og að á­horf­endur styðji ræki­lega við bakið á ykkur?

„Það skiptir ó­trú­lega miklu máli. Það er alltaf sér­stök til­finning sem fylgir því að ganga inn á völlinn með fulla stúku af fólki og maður heyrir í á­horf­endunum. Ég vona að fólk komi og horfi. Styðji okkur á­fram.

Leikur Íslands og Þýskalands í undankeppni EM 2025 í Sviss fer fram á Laugardalsvelli á föstudaginn kemur og hefs klukkan korter yfir fjögur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×