Innlent

Lög­reglan kölluð til er hundur lék lausum hala á Reykja­nes­brautinni

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
reykjanes
Skjáskot/Víkurfréttir

Lögreglan var kölluð til klukkan hálf ellefu í gærkvöldi vegna hunds sem lék lausum hala á Reykjanesbrautinni skammt frá Grænásbraut. Umferð var stöðvuð á brautinni af stórum sendiferðabíl sem þveraði veginn á meðan vegfarendur reyndu að ná hundinum.

Sölvi Rafn Rafnsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við Vísi að tveir lögreglumenn hafi mætt á vettvang í gærkvöldi til að aðstoða vegfarendur við að ná hundinum. Lögreglumennirnir veittu hundinum eftirför í drykklanga stund á Reykjanesbrautinni áður en þeir náðu honum að lokum.

Víkurfréttir greindu fyrst frá málinu og birtu myndskeið á Facebook-síðu sinni sem er hægt að berja augum í spilaranum hér að neðan.

„Hundurinn var eltur á fæti af tveimur lögreglumönnum og náðist að lokum. Við tókum hann niður á stöð og ræddum við hann. Hann lofaði að gera þetta ekki aftur og síðan kom eigandinn að ná í hann,“ segir Sölvi kíminn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×