Fótbolti

Fyrstur í sögunni til að verja þrjár víta­spyrnur í sama EM-leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Diogo Costa las leikmenn Slóveníu og varði allar þrjár vítaspyrnur þeirra.
Diogo Costa las leikmenn Slóveníu og varði allar þrjár vítaspyrnur þeirra. Ibrahim Ezzat/Getty Images

Diogo Costa, markvörður Porto og Portúgals, skráði sig á spjöld sögunnar í gærkvöld þegar hann varði þrjár vítaspyrnur í einum og sama leiknum á Evrópumóti karla í knattspyrnu. Markvörslur hans hjálpuðu Portúgal að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum.

Portúgal mætir Frakklandi í 8-liða úrslitum EM eftir dramatískan sigur á Slóveníu í vítaspyrnukeppni. Cristiano Ronaldo var nálægt því að stela fyrirsögnunum eftir að Portúgal fékk vítaspyrnu í uppbótartíma. Jan Oblak, markvörður Slóveníu, gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði þá spyrnu örugglega. 

Ronaldo upp fyrir mistök þegar hann kom Portúgal yfir í vítaspyrnukeppninni með þeirra fyrstu spyrnu. Það hjálpaði vissulega til að hinn 24 ára gamli Costa hafði skömmu áður varið vítaspyrnu Josip Iličić þar sem Slóvenía byrjaði vítaspyrnukeppnina. 

Ekki nóg með það heldur varði Costa einnig frá Jure Balkovec áður en Bruno Fernandes kom Portúgal í 2-0. Costa varði svo aftur, að þessu sinni frá Benjamin Verbič, áður en Bernardo Silva skaut Portúgal í 8-liða úrslti Evrópumótsins. 

Er þetta í fyrsta sinn sem markvörður á Evrópumóti karla í knattspyrnu ver þrjár vítaspyrnur í einum og sama leiknum. Einnig er Costa fyrsti markvörður í sögu EM karla sem heldur hreinu í framlengdum leik sem og vítaspyrnukeppni.

Hann var eðlilega  kosinn maður leiksins og sagði í viðtali eftir leik að líklega væri um að ræða hans besta leik á ferlinum. Mögulega þarf hann að eiga annan eins stórleik gegn Frakklandi í næstu umferð en franska liðið hefur til þessa spilað undir getu á mótinu.


Tengdar fréttir

„Líklega besti leikur lífs míns“

Diogo Costa, markvörður og hetja Portúgala, var heldur betur kátur og sáttur eftir að hafa í kvöld, öðrum fremur, tryggt þjóð sinni sæti í átta liða úrslitum á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×