Körfubolti

Tveir Frakkar valdir fyrstir í nýliðavali NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zaccharie Risacher ásamt Adam Silver, yfirmanni NBA-deildarinnar.
Zaccharie Risacher ásamt Adam Silver, yfirmanni NBA-deildarinnar. getty/Lev Radin

Annað árið í röð var Frakki valinn með fyrsta valrétti í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfubolta. Sonur LeBrons James var ekki valinn í 1. umferð nýliðavalsins.

Í fyrra valdi San Antonio Spurs Frakkann Victor Wembanyama með fyrsta valrétti og í ár valdi Atlanta Hawks landa hans, Zaccharie Risacher, númer eitt.

Á síðasta tímabili lék Risacher með JL Bourg í frönsku úrvalsdeildinni og EuroCup og skilaði 11,1 stigum og 4,0 fráköstum að meðaltali í leik. Hann er nítján ára framherji sem er 2,06 metrar á hæð. Faðir Risachers, Stéphane, var líka körfuboltamaður og vann meðal annars silfur með franska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Sydney 2000.

„Þetta er blessun, svo spennandi. Tilfinningarnar eru miklar núna. Ég veit ekki hvað ég á að segja en þetta er sannarlega einstakt,“ sagði Risacher eftir að hann var valinn.

Washington Wizards valdi annan Frakka, Alex Sarr, með öðrum valrétti. Hann er nítján ára 2,13 metra hár miðherji. Houston Rockets valdi svo bakvörðinn Reed Sheppard með þriðja valrétti.

Með fjórða valrétti valdi San Antonio bakvörðinn Stephon Castle sem varð háskólameistari með Connecticut í vetur. Detroit Pistons valdi svo Ron Holland III með fimmta valrétti.

Bronny James, sonur LeBrons, var ekki valinn í 1. umferð nýliðavalsins. Önnur umferðin fer fram í dag.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig liðin völdu í 1. umferð nýliðavalsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×