Enski boltinn

Manchester United missir fleiri stjörnur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Earps er á förum frá Man United.
Earps er á förum frá Man United. Marc Atkins/Getty Images

Annað sumarið í röð stefnir í að kvennalið Manchester United missi nokkra af sína bestu leikmönnum. Mary Earps, sem er talin vera meðal bestu markvarða heims, er á leið frá félaginu og þá hefur verið staðfest að Lucía Garcia verði ekki áfram.

Fyrir ári síðan fór Alessia Russo frá Man United til Arsenal og Ona Batlle samdi við verðandi Evrópu- og Spánarmeistara Barcelona. Annað árið í röð virðist félagið eiga erfitt með að halda í sína bestu leikmenn en Earps er sögð á leið til París Saint-Germain þegar samningur hennar við Rauðu djöflana rennur út.

Hin 31 árs gamla Earps er af mörgum talin besti markvörður heims enda verið kosin sú besta í heimi af FIFA bæði 2022 og 2023. Man United hefur lengi vel reynt að framlengja samning landsliðsmarkvarðarins en aldrei náðist samkomulag. 

Þá hefur heyrst að PSG sé tilbúið að borga talsvert hærra og að Earps verði launahæsti markmaður kvennafótboltans eftir vistaskiptin. Earps lék ekki með enska landsliðinu í síðasta mánuði vegna meiðsla en á að baki 50 A-landsleiki og stóð vaktina þegar England varð Evrópumeistari 2022 og fór alla leið í úrslit á HM ári síðar.

Earps er ekki eini leikmaðurinn sem Man United missir frítt í sumar því félagið hefur þegar opinberað að Lucía Garcia mun yfirgefa félagið þegar samningur hennar rennur út. Hún á að baki 46 A-landsleiki fyrir Spán.

Man United endaði í 5. sæti ensku úrvalsdeildar kvenna á síðustu leiktíð en vann ensku bikarkeppnina eftir 4-0 sigur á Tottenham Hotspur í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×