Handbolti

Öruggur sigur á Svart­fjalla­landi tryggði sæti í 8-liða úr­slitum

Siggeir Ævarsson skrifar
Lilja Ágústsdóttir fór á kostum í dag og skoraði 13 mörk
Lilja Ágústsdóttir fór á kostum í dag og skoraði 13 mörk IHF

U20 ára landslið Íslands tryggði sér nú rétt í þessu sæti í 8-liða úrslitum  heimsmeistaramóts 20 ára landsliða kvenna í handbolta með öruggum 35-27 sigri á Svartfjallalandi.

Leikurinn var í járnum framan af og Íslendingar að elta allan fyrri hálfleik. Reglulega náði liðið að jafna en ekki að komast yfir fyrr en rétt fyrir hálfleik og leiddi 15-14 þegar liðin gengu til búningsklefa.

Í seinni hálfleik tóku íslensku stelpurnar öll völd á vellinum og keyrðu muninn fljótlega upp í fimm mörk. Þá tóku Svartfellingar leikhlé, löguðu stöðuna aðeins til en svo keyrðu Íslendingar einfaldlega yfir andstæðinga og unnu að lokum öruggan átta marka sigur.

Svartfellingar virtust láta þennan viðsnúning fara töluvert í taugarnar á sér, spiluðu gróft og létu reglulega reka sig út af í tvær mínútur, t.d. þegar Ethel fékk skot í ennið í markinu en í sókninni á undan hafði Elínu Klöru verið hrint harkalega í gólfið þegar hún braust í gegnum vörnina og skoraði.

Leiðinlegur endir á annars góðum leik og Ísland er með sigrinum komið áfram í 8-liða úrslit þrátt fyrir að eiga einn leik eftir í milliriðli á morgun gegn Portúgal, en liðið er taplaust á mótinu til þessa.

Lilja Ágústsdóttir fór á kostum í dag og skoraði 13 mörk. Þá átti Elín Klara Þorkelsdóttir góðan leik og skoraði sex.

Ethel Gyða Bjarnasen átti einnig góðan dag í rammanum og varði 19 skot, eða 42 prósent af þeim skotum sem hún fékk á sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×