Skoðun

Tíma­mót í ör­orku- og endurhæfingarmálum - takk VG, takk ríkis­stjórn

Steingrímur J. Sigfússon skrifar

Mjög hefur ágerst hin síðari ár að ræða um störf kjörinna fulltrúa, á Alþingi og í sveitarstjórnum eins og það sé sjálfgefið að þeir sem þar starfa eigi fátt skilið nema skít og skömm fyrir sín störf. Eru þetta þó þeir sem kjósendur sjálfir völdu til þessara verka. Í reynd eru hinir kjörnu fulltrúar að sinna samfélagsþjónustu, bjóða fram krafta sína til að vinna fyrir samfélagið í fjögur ár.

Að sjálfsögðu þurfa hinir kjörnu fulltrúar aðhald og hafa gott af heilbrigðri gagnrýni, en það mætti stundum ætla af umræðunni að kjósendur hefðu verið einstaklega óheppnir í vali sínu með fulltrúa. Sökum þess að það gerist svo sjaldan, afar sjaldan að þessum hinu sömu kjörnu fulltrúum sé þakkað fyrir nokkurn skapaðan hlut. Það skal nú gert.

Nú laugardaginn 22. júní urðu mikil og gleðileg tímamót í málaflokki örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Langþráðar breytingar á úr sér gengnu bótakerfi sem var stagbætt, flókið, með meira og minna öfugum hvötum til virkni, atvinnuþátttöku og náms, með götóttri framfærslu og óöryggi voru loks lögfestar á Alþingi. Þær taka gildi að ári og gefst því góður tími til að undirbúa og innleiða þessar miklu kerfisbreytingar vel. Mest um vert er að kjör nær allra sem eru í þeirri stöðu að hafa örorku-, sjúkra- eða endurhæfingargreiðslur sér til framfærslu, að minnsta kosti um tíma munu batna verulega og afkomuöryggi þeirra aukast til muna. Verður enda 18 milljörðum króna til viðbótar veitt til kerfisins.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur verið vakin og sofinn yfir því mikla verkefni að koma þessu máli í höfn. Það þekki ég undirritaður frá fyrstu hendi sem fulltrúi hans og formaður í stýrihópi fjögurra ráðuneyta sem hafði það verkefni að vinna að framgangi málsins í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Með mér í stýrihópnum var öndvegis lið og við náðum vel saman, Eygló Harðardóttir fulltrúi heilbrigðisráðherra, Henný Hinz fulltrúi forsætisráðherra og Óli Björn Kárason fulltrúi fjármálaráðherra. Ekki skal þó gert of mikið úr okkar hlut, þungi vinnunnar mæddi á starfsfólki ráðuneyta, hagsmunasamtökum og fagfólki stofnana sem koma til með að bera hitann og þungann af framkvæmd breytinganna. Loks var það velferðarnefnd Alþingis og Alþingi sjálft sem afgreiddi málið í ánægjulegri sátt og er á engan hallað þó Steinunn Þóra Árnadóttir framsögumaður málsins sé nefnd sérstaklega í því sambandi.

Árangur af ríkisstjórnarsamstarfi

Hér skal það fullyrt að farsæl málalok í þessu risavaxna lífskjara- og mannréttindamáli megi þakka núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og þó fyrst og fremst þátttöku Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í því. VG hefur haft þetta mál á oddinum frá upphafi núverandi stjórnarsamstarfs 2017, beitti sér fyrir ákvæðum um það í stjórnarsáttmálum bæði 2017 og 2021 og hefur svo haft forustu í málinu síðan þá.

Þá er sérstaklega gleðilegt að Alþingi gerði einnig að lögum og þennan sama dag, þ.e. laugardaginn 22. júní sl. tilurð sjálfstæðrar og óháðrar mannréttindastofnunar, Mannréttindastofnunar Íslands sem mun ekki síst leika lykilhlutverk í mannréttindagæslu í þágu öryrkja og staðið hefur upp á Ísland að stofna til að geta fullnægt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fyrir því máli beitti fyrrverandi forsættisráðherra Katrín Jakobsdóttir sér sérstaklega eins og alkunnugt er og má því þakka henni og þátttöku VG í núverandi ríkisstjórn einnig því samhengi.

Tugir þúsunda öryrkja, þeirra sem veikjast, lenda í slysum eða áföllum og verða af þeim sökum óvinnufærir og þurfa á endurhæfingu að halda munu á næstu árum og áratugum njóta góðs af þeim breytingum sem með þessum málum verða. Ekki svo að skilja að lífskjara- og réttindabarátta fatlaðs fólks og annarra þeirra sem höllum fæti standa er viðvarandi verkefni og langt í frá allt fengið með afgreiðslu þessara mál. Þau eru þó stórt skref, risastórt skref að mínu mati í rétta átt og höfum í huga að fyrri tilraunir til breytinga í sömu átt hafa aftur og aftur endað úti í skurði sl. tvo áratugi eða svo. Það er því ekki sjálfgefið að koma stórmálum í þessum vandasama og viðkvæma málaflokki í höfn.

Takk Guðmundur Ingi Guðbrandsson, takk Katrín Jakobsdóttir, takk Steinunn Þóra Árnadóttir, takk VG, takk ríkisstjórnarsamstarf VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Höf. Er fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis, í flokksráði VG og eindreginn stuðningsmaður hreyfingarinnar og núverandi ríkisstjórnarsamstarfs, en þó auðvitað ekki ánægður með allt.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×