Fótbolti

Shaw að verða klár í slaginn með Eng­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luke Shaw er byrjaður að æfa á nýjan leik.
Luke Shaw er byrjaður að æfa á nýjan leik. Eddie Keogh/Getty Images

Luke Shaw, leikmaður enska landsliðsins og Manchester United, er byrjaður að æfa á ný eftir löng meiðsli. Hann gæti því verið til taks þegar England mætir Slóveníu í lokaleik riðlakeppni EM karla í fótbolta eða þá í útsláttarkeppninni.

Það kom á óvart þegar Gareth Southgate, landsliðsþjálfari, valdi hinn 28 ára gamla vinstri bakvörð í lokahóp Englands fyrir EM sem nú fer fram í Þýskalandi. Hann hefur verið frá vegna meiðsla síðan í febrúar en Shaw var meira og minna meiddur allt síðasta tímabil. Alls kom hann við sögu í 15 leikjum Man United á leiktíðinni.

Þrátt fyrir það valdi Southgate hann í hópinn með það að leiðarljósi að hann yrði leikfær þegar liði á EM. Það er að ganga eftir og Shaw byrjaður að æfa á nýjan leik. Hægri bakvörðurinn Kieran Trippier hefur spilað í vinstri bakverðinum hjá Englandi á mótinu en liðið hefur ekki staðið undir væntingum til þessa.

England mætir Slóveníu annað kvöld þegar C-riðill klárast. England er með fjögur stig á toppi riðilsins, Danmörk og Slóvenía eru með tvö stig á meðan Serbía rekur lestina með stakt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×