Fótbolti

Núnez skoraði í úrúgvæskum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darwin Núnez skoraði sitt tólfta landsliðsmark gegn Panama í nótt.
Darwin Núnez skoraði sitt tólfta landsliðsmark gegn Panama í nótt. getty/Carl Kafka

Darwin Núnez, framherji Liverpool, var á skotskónum þegar Úrúgvæ sigraði Panama, 3-1, í Suður-Ameríkukeppninni í nótt.

Strákarnir hans Marcelos Bielsa áttu ekki í miklum vandræðum með að sigra Panama-menn á Hard Rock leikvanginum í Miami og eru því komnir með þrjú stig í C-riðli.

Maximiliano Araújo kom Úrúgvæ yfir á 16. mínútu með fallegu marki og staðan var 1-0 alveg þar til sex mínútur voru eftir.

Þá kom Núnez Úrúgvæum í 2-0 með sínu tólfta marki í 24 landsleikjum. Matías Vina skoraði svo þriðja mark Úrúgvæ í uppbótartíma áður en Michael Amir Murillo minnkaði muninn í 3-1.

Christian Pulisic var í miklu stuði þegar Bandaríkin unnu Bólivíu, 2-0, í hinum leik C-riðilsins. AC Milan-maðurinn skoraði fyrra mark bandaríska liðsins og lagði það síðara upp fyrir Folarin Balogun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×