Innlent

Neyddust til að af­lýsa flug­ferðum vegna raf­magns­leysis

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Icelandair neyddist til að aflýsa tveimur flugferðum í dag.
Icelandair neyddist til að aflýsa tveimur flugferðum í dag. Vísir/Vilhelm

Öllum flugferðum til og frá tveimur stærstu flugstöðvunum á flugvellinum í Manchester-borg í Englandi var aflýst í dag vegna rafmagnsleysis í byggingu flugvallarins. Icelandair neyddist til að aflýsa flugferðum sínum til og frá Manchester í dag.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir þetta í samtali við Vísi. 

Farþegar komnir á Keflavíkurflugvöll

„Þetta kom upp í morgun. Þá fengum við tilkynningu um þetta frá Manchester-fluvelli. Þetta byrjaði með að við seinkuðum flugferðinni frá Keflavík og síðan sáum við í samráði við starfsfólk á flugvellinum að það væri eina leiðin að aflýsa því,“ segir hann.

Hann tekur fram að farþegarnir hafi verið komnir á Keflavíkurflugvöll og flestir búnir að bíða í ágæta stund þegar fluginu var aflýst en að því hafi verið sýndur mikill skilningur enda lítið sem Icelandair gat gert í stöðunni.

Mikil mannmergð myndaðist á flugvellinum

„Við aðstoðuðum fólk sem á þurfti að halda með hótelgistingu fyrir nóttina hér á Íslandi. Svo erum við búin að setja upp annað flug á morgun.“

Hann tekur fram að Icelandair hafi sent tilkynningu til farþega í Manchester um leið og ljóst var í hvað stefndi í morgun og að farþegar hafi því ekki þurft að gera sér fýluferð á flugvöllinn þar. Mikil mannmergð myndaðist á Manchester-flugvelli í morgun vegna rafmagnsleysisins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×