Íslenski boltinn

Bestu mörkin: ÞórKA er al­vöru lið byggt upp af heimastelpum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þór/KA liðið hefur staðið sig frábærlega í sumar. Nóg af mörkum og fullt af stigum. Liðið á enn möguleika á tveimur titlum.
Þór/KA liðið hefur staðið sig frábærlega í sumar. Nóg af mörkum og fullt af stigum. Liðið á enn möguleika á tveimur titlum. Vísir/Hulda Margrét

Þór/KA stelpur unnu sinn sjöunda sigur í níu leikjum í Bestu deild kvenna í sumar í síðustu umferð og starfið fyrir norðan fékk mikið hrós í Bestu mörkunum í gær.

Þór/KA liðið er í þriðja sæti, aðeins þremur stigum á eftir toppliðunum og með markatöluna 25-10. Liðið á líka langmarkahæsta leikmann deildarinnar í Söndru Maríu Jessen, en hún hefur skorað tólf mörk í tíu leikjum.

„Við hlökkum svolítið til að fylgjast með Þór/KA í framhaldinu,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna.

Þær eru í þessari toppbaráttu

„Þær eru í þessari toppbaráttu. Þær eru bara búnar að tapa sex stigum og efstu liðin eru búin að tapa þremur. Það er ekki neitt,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna.

„Þær eru líka í undanúrslitum í bikar og við þurfum að tala meira um Þór/KA sem titilbaráttulið,“ sagði Mist.

„Við verðum líka að athuga að þetta lið er nánast byggt upp á heimastelpum,“ sagði Helena.

Sjáum þetta ekki í stærstu klúbbum landsins

„23 stelpur búnar að spila. Átján frá Akureyri, ein frá Húsavík, þrír útlendingar og ein á láni frá Val. Þessar upplýsingar fæ ég frá frábærri heimasíðu Þór/KA og ég vil hrósa þeim sem eru að halda utan um umgjörðina fyrir norðan,“ sagði Mist.

„Við sjáum þetta ekki í stærstu klúbbum landsins,“ sagði Þóra B. Helgadóttir, sérfræðingur Bestu markanna. Þær ræddu aðeins Val og Breiðablik í samanburði við að gefa heimastúlkum tækifæri en það má horfa á þessa umfjöllun hér fyrir neðan.

Klippa: Bestu mörkin: Þór/KA er nánast byggt upp á heimastelpum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×