Innlent

Máli Péturs Jökuls vísað frá

Jón Þór Stefánsson skrifar
Pétur Jökull var eftirlýstur af Interpol vegna meintra tengsla hans við stóra kókaínmálið fyrr á árinu.
Pétur Jökull var eftirlýstur af Interpol vegna meintra tengsla hans við stóra kókaínmálið fyrr á árinu. Vísir/Samsett

Máli Péturs Jökuls Jónassonar, sakbornings í stóra kókaínmálinu, hefur verið vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Héraðssaksóknari hefur kært þá niðurstöðu til Landsréttar.

Þetta staðfestir Snorri Sturluson, verjandi Péturs, í samtali við fréttastofu. Þegar fréttastofa náði tali af honum sagðist hann ekki hafa náð að lesa úrskurð héraðsdóms, en málinu var vísað frá vegna óskýrleika í ákæru.

DV greindi fyrst frá frávísuninni.

Greint var frá því við þingfestingu málsins í héraðsdómi í byrjun mánaðar að dómari hafi gagnrýnt saksóknara fyrir að leggja ekki fram nákvæma verknaðarlýsingu Péturs.

Stóra kókaínmálið varðar innflutning á rúmlega 99 kílóum af kókaíni frá Brasilíu árið 2022. Efnin voru falin í timbursendingu en uppgötvuðust áður en þau komu til landsins og því var þeim skipt út fyrir gerviefni.

Fjórir menn voru dæmdir í málinu í fyrra en lögreglan taldi ljóst að fimmti maðurinn væri viðriðinn málið og taldi að Pétur Jökull væri sá maður.

Lýst var eftir Pétri á vef Interpol í byrjun árs. Hann kom hingað til lands með flugi frá Evrópu í kjölfarið, sjálfviljugur. Við komuna til landsins var hann handtekinn og færður í varðhald.


Tengdar fréttir

Aðild Péturs Jökuls óskýr að sögn dómara

Pétur Jökull Jónasson var ákærður fyrir hlutdeild í stórfelldum innflutningi á kókaíni til Íslands í síðasta mánuði. Við þingfestingu málsins sem fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag gagnrýndi dómari saksóknara fyrir að hafa ekki lagt fram nákvæma verknaðarlýsingu með ákæruskjalinu yfir Pétri Jökli eins og tíðkast í málum sem slíkum.

Sáu ekki andlit huldumanns sem þeir telja vera Pétur Jökul

Pétur Jökull Jónasson neitar sök í stóra kókaínmálinu svokallaða. Hann vill ekki tjá sig um gögn lögreglu í málinu sem varða til dæmis staðsetningar á farsímum, ferðalög milli landa, tengsl hans við aðra sakborninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×