Körfubolti

Þjálfari Boston Celtics þarf að fara í að­gerð eftir tíma­bilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Mazzulla, þjálfari Boston Celtics, lyftir hér NBA bikarnum eftir sigur liðsins í fimmta leiknum á móti Dallas Mavericks.
Joe Mazzulla, þjálfari Boston Celtics, lyftir hér NBA bikarnum eftir sigur liðsins í fimmta leiknum á móti Dallas Mavericks. Getty/Elsa

Það þekkist að leikmenn í NBA-deildinni þurfi stundum að leggjast undir hnífinn eftir hörð átök á tímabilinu en það er ekki eins algengt að þjálfarar endi á skurðarborðinu eftir leiktíðina.

Sú er samt raunin fyrir Joe Mazzulla sem var að gera Boston Celtics að NBA meisturum í fyrrinótt.

Mazzulla er yngsti meistaraþjálfarinn í 55 ár eða síðan Bill Russell gerði Boston Celtics að meisturum árið 1969 sem spilandi þjálfari. Russell var þá 35 ára gamall alveg eins og Mazzulla er núna.

Í viðtali við Sportscenter eftir síðasta leikinn á móti Dallas Mavericks þá sagði Mazzulla frá því að hann hefði rifið liðþófa í mars.

Eftir að Mazzulla var spurður af því hvernig hann ætlaði að halda upp á sigurinn þá uppljóstraði hann þessu.

„Ég þarf að fara í hnéaðgerð. Ég reif liðþófa í mars eftir að við töpuðu fyrir Atlanta. Ég verð því frá í einhvern tímann en ég hef verið að vinna mig í gegnum þessi meiðsli síðan í mars,“ sagði Joe Mazzulla.

Mazzulla er fæddur 30. júní 1988 og heldur því fljótlega upp á 36 ára afmælið sitt. Hann hefur þjálfað Boston liðið síðan í september 2022 þegar þáverandi þjálfari Ime Udoka var settur í bann. Mazzulla tók fyrst við tímabundið en var síðan fastráðinn í febrúar 2023.

Boston Celtics hefur unnið 121 af 164 deildarleikjum undir hans stjórn (74 prósent) og 27 af 39 leikjum í úrslitakeppni (69 prósent).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×