Neytendur

Tæpar 2500 krónur fyrir litla sam­loku á Geysi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Einn netverjinn komst svo að orði að um „ránstykki“ væri að ræða. 
Einn netverjinn komst svo að orði að um „ránstykki“ væri að ræða.  Facebook

Meðlimur í Facebook-hópnum Vertu á verði - eftirlit með verðlagi vekur athygli á að samlokur á stærð við rúnstykki á matsölustaðnum við Geysi kosti tæpar 2500 krónur. Eigandi staðarins segir samlokurnar matarmiklar og nýsmurðar með áleggi beint frá býli. 

„Finnst þetta frekar dýrt fyrir rúnstykki, 2480kr. Meira að segja lítil,“ segir Ásdís Lilja Ingimarsdóttir meðlimur í færslu í hópnum Vertu á verði - eftirlit með verðlagi. 

Samlokurnar eru fáanlegar með lamba- eða túnfiskáleggi og eru á stærð við rúnstykki. 

Færslan hefur vakið mikla athygli, en 87 manns hafa gert athugasemd við hana. Þar er verðinu lýst sem græðgi af hálfu ferðaþjónustunnar og verðlagningin sögð ruddaleg. Illa sé vegið að gestum okkar að utan. 

Þá segja einhverjir verðlagningu af þessu tagi útskýra minnkandi ferðamannastraum til landsins. Fréttastofa ræddi við sérfræðing í starfrænni markaðssetningu á dögunum sem sagði stöðuna í ferðamennskunni út árið grafalvarlega. Áhugi ferðalanga á Íslandi virðist ekki vera sá sami og áður. 

Fréttastofa hafði samband við Elínu Svöfu Thoroddsen einni af eigendum ferðaþjónustunnar á Geysi vegna málsins. Hún útskýrði að samlokurnar væru heimagerðar með fersku salati beint frá býli. 

„Starfsmennirnir mæta snemma á vaktina til að smyrja samlokurnar þannig að þær séu ferskar,“ segir Elín og segir samlokurnar svo matarmiklar að þær dugi jafnvel fyrir tvo. 

„Eins og allir vita er innkaupaverð hátt og allir eru að berjast. Og við gerum okkar besta í verðlagningu,“ bætir Elín við. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×