Íslenski boltinn

„Ef hún andar inn á vellinum þá skorar hún“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen fagnar marki með Bríeti Fjólu Bjarnadóttur í sumar.
Sandra María Jessen fagnar marki með Bríeti Fjólu Bjarnadóttur í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Sandra María Jessen varð um helgina sú fimmtánda í sögunni til að skora hundrað mörk í efstu deild kvenna í fótbolta.

Bestu mörkin ræddu afrek Söndru sem er langmarkahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna í sumar með tólf mörk í aðeins átta leikjum. Það var byrjað á því að ræða þá ákvörðun Söndru að halda tryggð við ungt lið Þór/KA.

„Við bjuggumst við því að það yrði erfitt fyrir Þór/KA að halda henni. Það tekst hjá Jóa [Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA]. Auðvitað eru hennar fjölskyldutengsl fyrir norðan en það hefur örugglega töluvert þurft til að halda henni fyrir norðan,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna.

„Maður skilur það að það hafi mögulega kitlað aðeins. Nú er ég ekki að tala um að koma á höfuðborgarsvæðið af því að það er svo frábært. Að fá nýja áskorun fyrir hana á Íslandi. Hún hefur bara spilað í Þór/KA á Íslandi og það eru margir leikmenn sem vilja fá nýja áskorun,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

„Ég held bara að hún hafi fundið sér nýja áskorun fyrir norðan og maður getur alltaf gert það í því umhverfi sem maður er í. Maður þarf bara að hugsa út fyrir boxið og ég held að Sandra María hafi gert það enda er hún að standa sig frábærlega vel,“ sagði Margrét Lára.

„Ef hún andar inn á vellinum þá skorar hún. Eins og þetta fyrsta mark. Ég veit ekkert hvort hún snertir boltann einu sinni. Henni er alveg sama. Hún fagnar því,“ sagði Margrét. Þær skoðuðu síðan mörk Söndru í sigrinum á Stjörnunni.

„Svo þarftu, Margrét Lára, að fagna til þess að eiga mörkin,“ sagði Helena.

Hér fyrir neðan má sjá umræðuna um Söndru Maríu og hvar hún er meðal markahæstu leikmanna sögunnar. Á listanum mátti líka sjá bæði Margréti Láru og Helenu og þær ræddu það aðeins líka.

Klippa: Bestu mörkin. Sandra María með hundrað mörk í efstu deild



Fleiri fréttir

Sjá meira


×