Íslenski boltinn

Missti af útskriftinni sinni af því að hún var of upp­tekin við að vinna leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unnur Dóra Bergsdóttir er á sínu þriðja tímabili sem fyrirliði Selfossliðsins.
Unnur Dóra Bergsdóttir er á sínu þriðja tímabili sem fyrirliði Selfossliðsins. Visir/Diego

Unnur Dóra Bergsdóttir og félagar hennar í Selfossliðinu unnu lífsnauðsynlegan sigur í Lengjudeildinni um helgina en fyrirliðinn þurfti að fórna sér fyrir málstaðinn.

Unnur Dóra er 23 ára gömul en hefur samt verið fyrirliði Selfossliðsins undanfarin þrjú ár og hún leiddi liðið til 1-0 sigurs á Aftureldingu í Lengjudeild kvenna á laugardaginn.

Selfoss var búið að tapa tveimur leikjum í röð og hafði aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum. Afturelding var fimm sætum fyrir ofan Selfoss. Þetta var því dýrmætur sigur ætli Selfosskonur að vinna sér aftur sæti í Bestu deildinni í haust.

Það hittist aftur á móti svo á að leikurinn fór fram á sama tíma og Unnur Dóra var að útskrifast úr Háskóla Íslands. Hún var þar að tryggja sér BA gráðu í þroskaþjálfafræði.

Unnur sagði frá því á samfélagsmiðlinum Instagram að hún hefði ekki komist til að taka á móti BA gráðunni af því að hún var of upptekin að vinna leik.

Hún birti mynd af sér út klefanum að fagna sigri með liðsfélögunum.

Eina mark leiksins skoraði hin nítján ára gamla Katrín Ágústsdóttir eftir undirbúning frá jafnöldru sinni Auði Helgu Halldórsdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×