Íslenski boltinn

Ís­lands­meistararnir unnu öruggt gegn ný­liðunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Amanda Jacobsen Andradóttir skoraði og lagði upp í dag.
Amanda Jacobsen Andradóttir skoraði og lagði upp í dag. vísir / anton brink

Íslandsmeistarar Vals unnu öruggan 4-1 sigur gegn nýliðum Fylkis í 8. umferð Bestu deildar kvenna.

Ísabella Sara Tryggvadóttir hefur verið frábær það sem af er tímabilsins með Val og skoraði fyrsta mark leiksins á 11. mínútu. Þetta var hennar sjöunda mark í tíu leikjum á tímabilinu.

Valskonur voru mun sterkari aðilinn en bættu ekki öðru marki við fyrr en í seinni hálfleik. Amanda Jacobsen Andradóttir var þar á ferðinni eftir fyrirgjöf Fanndísar Friðriksdóttur.

Amanda lagði svo þriðja markið upp á Jasmín Erlu Ingadóttur. Frábær sending og enn betri afgreiðsla.

Abigail Patricia Boyan minnkaði muninn með herkjumarki á 82. mínútu en Berglind Rós Ágústsdóttir setti fjórða mark Vals fimm mínútum síðar. Fékk boltann rétt fyrir utan vítateig og skaut í fyrstu snertingu yfir markmann Fylkis.

Valskonur fóru því með öruggan sigur og hafa unnið sjö af átta deildarleikjum. Þær eru í 2. sæti deildarinnar á eftir Breiðabliki sem er með fullt hús stiga.

Fylkir er í 9. og næstneðsta sæti með 5 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×