Innlent

Björgunar­sveitir sinntu reiðslysi og gönguslysi í gær

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mynd frá björgunaraðgerðunum í Borgarfirði.
Mynd frá björgunaraðgerðunum í Borgarfirði. Landsbjörg

Björgunarsveitir á Suður- og Vesturlandi brugðust við tveimur útköllum í tengslum við útivist í gær, annars vegar vegna reiðslyss í Borgarfirði og hins vegar vegna gönguslyss í Þórsmörk.

Í fréttatilkynningu frá Landsbjörg segir að um hálftvöleytið í gær hafi Björgunarsveitin Ok í Reykholti verið boðuð út vegna hestaslyss við Kalmanstungu í Borgarfirði. Farið hafi verið á jeppa og buggy-bílum sveitarinnar og sjúkraflutningamaður fengið far með þeim áleiðis á slysstað en lögregla hafi einnig verið kölluð til. 

Komið hafi verið að þeim slasaða tæpum klukkutíma eftir að útkall barst en eftir mat á áverkum hafi verið ákveðið að óska eftir aðstoð frá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Rétt rúmlega 15 hafi hinn slasaði verið kominn í þyrlu á leið frá slysstað.

Stuttu seinna hafi Björgunarsveitin Bróðurhönd og Björgunarsveitin Dagrenning verið boðaðar vegna gönguslyss rétt undir toppi Valahnúks í Þórsmörk. Björgunarsveitirnar hafi brugðist hratt við og Björgunarsveitin Bróðurhönd komið fyrst á vettvang ásamt skálavörðum í Langadal. Björgunarsveitin Dagrenning komið stuttu seinna auk björgunarsveitarfólks sem hafði verið í helgarfríi í Þórsmörk. 

Þá segir að hinn slasaði hafi verið með áverka á fæti og ekki getað staðið í fótinn. Hann hafi verið færður með böruburði stutta leið niður Valahnúk þar sem þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, sem kom beint úr útkallinu úr Borgarfirði, gat athafnað þyrlunni og var hinn slasaði kominn í þyrlu rétt rúmlega fjögur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×