Innlent

Ekkert breyst til batnaðar í rekstri borgarinnar

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Hildur Björnsdóttir segir l´jost að ekkert hafi batnað í rekstri borgarinnar með nýjum borgarstjóra.
Hildur Björnsdóttir segir l´jost að ekkert hafi batnað í rekstri borgarinnar með nýjum borgarstjóra. Vísir/Vilhelm

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir alveg ljóst að nýjum borgarstjóra fylgi ekki bættur rekstur. Fyrstu þrjá mánuði ársins hafi borgin skilað neikvæðri niðurstöðu sem nemur nær 3,3 milljörðum króna.

Í síðustu viku var greint frá því að borgarstjórn hefði samþykkt tillögu um að borgin tæki lán frá Þróunarbanka Evrópuráðsins, CEB, upp á 100 milljónir evra, sem gerir um fimmtán milljarða króna.

Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar hefur nú lagt fram bókun og óskað eftir upplýsingum um ástæðu lántöku frá Þróunarbankanum, fremur en innlendrar lántöku. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvaða varnir verði settar til að verjast gengisáhættu. Sjá á vef Reykjavíkurborgar.

Í gær var svo greint frá því að rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar hefði verið neikvæð um 3.292 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það væri 1.357 milljónum króna lakari niðurstaða en gert var ráð fyrir.

Hildur Björnsdóttir gerði þetta að umtalsefni á Feisbúkksíðu sinni í dag, þar sem hún sagði að ljóst væri að nýjum borgarstjóra fylgdi ekki bættur rekstur.

„Digurbarkalegar yfirlýsingar um jákvæðan viðsnúning í rekstri borgarinnar þetta árið voru orðin tóm. Þær yfirlýsingar gerðu ráð fyrir því að Perlan yrði seld fyrir tæpa 4 milljarða. Ekkert bendir til þess að því markmiði verði náð,“ sagði Hildur.

„Það er sama hvort litið er til leikskólamála, skólamála, húsnæðismála eða samgöngumála - svo ég tali nú ekki um fjármál borgarinnar - ekkert hefur breyst til batnaðar,“ sagði Hildur, en hún heldur að kominn sé tími á breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×