Innlent

Lögregluaðgerð á veitinga­stað í mið­bænum

Árni Sæberg, Jón Ísak Ragnarsson og Lovísa Arnardóttir skrifa
Gríska húsið er á Laugavegi 35.
Gríska húsið er á Laugavegi 35. Vísir/Sigurjón

Lögregla er að störfum við veitingastaðinn Gríska húsið á Laugavegi í miðbæ Reykjavíkur. Að sögn vegfaranda var einn leiddur út af staðnum í járnum.

Minnst fimm lögreglumenn eru að störfum við og inni á veitingastaðnum ásamt fíkniefnaleitarhundi. Þá eru fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Tollgæslunnar á svæðinu.

„Get staðfest að lögreglan var með aðgerðir við Gríska húsið á Laugavegi í dag en get að öðru leyti ekki tjáð mig neitt frekar um þær, þar sem aðgerðir standa enn yfir,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við fréttastofu að ekki sé hægt að upplýsa um aðgerðir lögreglu að svo stöddu. Aðgerðin sé enn í gangi en að líklega verði hægt að upplýsa frekar um málið seinni partinn í dag.

Veistu meira um málið? Hvar atvikið átti sér stað? Hverjir eiga í hlut? Ertu með myndir af svæðinu? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að fréttamaður náði á lögreglu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×