Skoðun

Sam­fylkingin – Með og á móti

Helgi Brynjarsson skrifar

Í ræðu Kristúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöldi, var henni tíðrætt um að Samfylkingin byði upp á „skýran valkost“ í næstu kosningum. Þrátt fyrir að einstaka þingmenn Samfylkingarinnar hafi séð ljósið í ákveðnum málaflokkum er engan veginn hægt að tala um stjórnmálaflokk sem hefur ólíka afstöðu í einu og sama málinu, kýs að vera bæði með og á móti, sem skýran valkost. Það er algjörlega ómögulegt að átta sig á stefnu flokksins og skoðun hans á þeim málum sem eru mest knýjandi í íslensku samfélagi, s.s. útlendingamálum, raforkumálum og stríðinu í Úkraínu, þar sem forystufólk flokksins virðst ekki geta verið sammála um þessi mikilvægu mál.

Sem dæmi má nefna að meirihluti þingflokks Samfylkingarinnar barðist á hæl og hnakka gegn útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins árum saman. Öllum að óvörum steig svo formaður flokksins skyndilega fram og tók undir útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins.

Varaformaður Samfylkingarinnar, Guðmundur Árni Stefánsson fordæmdi nýlega stuðning íslenskra stjórnvalda við Úkraínu í formi vopnakaupa til að verjast innrásarstríði Rússa. Daginn eftir kom Logi Einarsson, þingmaður flokksins og fyrrverandi formaður, fram og sagði kaupin samræmast stefnu flokksins.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, upplýsti okkur um daginn að flokkurinn styðji aukna orkuöflun og sagði að bregðast þurfi við orkuskorti. Hann var varla búinn að sleppa orðinu áður en að Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður flokksins og fyrrverandi umhverfisráðherra, reis upp á afturfæturnar og sagði orkuskortinn vera mýtu og að Jóhann skildi ekki stefnu Samfylkingarinnar.

Það er margt hægt að segja um Samfylkinguna, bæði gott og slæmt. En ekki er hægt að segja með góðri samvisku að stefna flokksins, hver svo sem hún er, sé skýr.

Höfundur er starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×