Erlent

Óeirðaástand í Buenos Aires vegna aðgerðarpakka Milei

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mótmælin voru við þinghúsið í Buenos Aires
Mótmælin voru við þinghúsið í Buenos Aires Getty

Öldungadeild argentínska þingsins hefur naumlega samþykkt efnahagsaðgerðapakka Javier Milei, forseta Argentínu. Á sömu stundu tókust mótmælendur og lögregla á fyrir utan þinghúsið í Buenos Aires.

Mótmælendurnir vilja meina að þessi aðgerðapakki Milei muni skaða milljónir Argentínumanna. Í mótmælunum köstuðu þeir bensínsprengjum og kveiktu í bílum.

Argentínskir fjölmiðlar lýsa ástandinu sem vígvelli. En tugir mótmælenda og að minnsta kosti tuttugu lögreglumenn eru sagðir slasaðir eftir mótmælin sem og nokkrir þingmenn.

Tugir mótmælenda og lögreglumanna eru sagðir slasaðir eftir átökin.Getty

BBC fjallar um málið, en þar segir að í þessum aðgerðarpakka Milei felst að lýst verði yfir neyðarástandi í efnahagsmálum, eftirlaun lækkuð, og réttindi verkafólks minnkuð.

Líkt og áður segir samþykkti öldungardeild þingsins þessar aðgerðir í gær. Í fyrstu var algjör pattstaða þar sem þingmenn greiddu jafnmörg atkvæði með og á móti. Það var varaforseti Argentínu, Victoria Villarruel, sem kom þeim úr pattstöðunni og greiddi atkvæði með pakkanum.

Þó á pakkinn eftir að fara fyrir neðri deild þingsins.

Mótmælendur hafa kveikt í bílum og kastað bensínsprengjum.Getty
Ástandinu er lýst sem vígvelliGetty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×