Viðskipti erlent

Danir höndla ekki kóresku pakkanúðlurnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Dönsk matvælayfirvöld telja að núðlurnar geti eitrað fyrir neytendum.
Dönsk matvælayfirvöld telja að núðlurnar geti eitrað fyrir neytendum. Getty

Dönsk matvælayfirvöld hafa innkallað vörur suðurkóreska fyrirtækisins Samyang sem framleiðir eldheita pakkanúðlurétti undir vörumerkinu Buldak.

Um er að ræða pakkanúðlur með kjúklingabragði sem eru merktar tvisvar og þrisvar sinnum sterkari en venjulegur skammtur af Buldak. Þess má geta að skammturinn sem er með hefðbundinn styrkleika er vandfundnari en útgáfurnar með tvöföldum og þreföldum styrkleika.

Umrædda pakkanúðlurétti má finna í matvöruverslunum hér á landi.

Að sögn danskra matvælayfirvalda er of hátt hlutfall af kapsaísíni í réttinum sem gæti leitt til eitrunnar. Kapsaísín er efni sem finnst í eldpipar og er í raun valdur þess að hann er sterkur.

BBC fjallar um málið og segir að ekki sé vitað til þess að núðluréttirnir hafi verið bannaðir í nokkru öðru landi áður. Þá er bent á að mikil umræða um málið hafi skapast á netinu þar sem Dönum er strítt fyrir að þola illa sterkan mat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×