Innlent

Sér ekki fyrir sér hval­veiðar í sumar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri og stærsti eigandi Hvals hf.
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri og stærsti eigandi Hvals hf. Vísir/Vilhelm

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri og stærsti eigandi Hvals hf. segist ekki búast við því að geta veitt hval í sumar þrátt fyrir leyfi sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra gaf út í gær.

„Ég sé ekki fyr­ir mér að orðið geti af hval­veiðum í sum­ar, enda er tím­inn á milli vertíða notaður til und­ir­bún­ings veiða næsta árs. Flest fólk skil­ur þetta, en ekki þess­ir ráðherr­ar Vinstri grænna,“ segir Kristján í samtali við Morgunblaðið. Fréttastofa reyndi að ná í Kristján í gær en án árangurs.

Í gær var tilkynnt að matvælaráðherra hefði veitt leyfi til veiða á langreyðum á þessu ári. Leyfilegt veiðimagn er 99 dýr á svæðinu Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar eða samtals 128 dýr.

Kristján segir að fyrir hvalveiðar þurfi að ráða vant fólk til vinnu og út­vega alls kyns rekstr­ar­vör­ur „Ef fyr­ir­sjá­an­leik­inn er ekki til staðar er þetta von­laust.“

„Þetta leyfi er gefið út í 204 daga. Ef ráðherr­ann vill drepa at­vinnu­rekst­ur er þetta leiðin til þess. Fyr­ir­sjá­an­leik­inn er eng­inn og að halda að það sé hægt að setja í gang svona rekst­ur með eng­um fyr­ir­vara er með ólík­ind­um.“

Kristján vill meina að það hafi verið áætlun Vinstri grænna að gera hvalveiðimönnum erfitt fyrir.

„Það er aug­ljóst að þarna hef­ur fólk verið að leika sér, það þyk­ist hafa legið und­ir ein­hverj­um feldi og er nú allt í einu komið und­an hon­um. Þetta er fyr­ir­framskrifað plan hjá þessu fólki, Bjarkeyju, Katrínu Jak­obs­dótt­ur og Svandísi Svavars­dótt­ur,“ segir hann.

„Þær hafa all­ar komið að mál­inu síðan um­sókn­in var send inn. Þetta hef­ur verið lög­leg at­vinnu­starf­semi all­an tím­ann, allt frá ár­inu 1948.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×