Innlent

Spegil­mynd af sam­fé­laginu muni búa á Heklureit

Heimir Már Pétursson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Fyrstu íbúðir fara í almenna sölu í ágúst. 
Fyrstu íbúðir fara í almenna sölu í ágúst.  Vísir/Einar ONNO ehf.

Heklureiturinn svokallaði í Reykjavík er að taka algerum stakkaskiptum. Ný íbúðarhús eru að rísa þar sem áður voru verkstæði. Framkvæmdastjóri Heklureits segir allt að 440 íbúðir munu rísa á reitnum og þær fyrstu verði afhentar haustið 2025. 

Heimir Már hitti Örn Kjartansson framkvæmdastjóra Heklureits í kvöldfréttum. Hann segir að alls muni fimm hús rísa á Heklureitnum og fyrstu íbúðirnar verði afhentar haustið 2025.

„Og í fyrsta húsinu eru 84 íbúðir, í því næsta 102. Þannig að þetta mun koma í almenna sölu, fyrsta húsið, í ágúst en við erum þegar búin að selja í forsölu einhverja 21 íbúð. Þannig að það er áhugi.“

Hekluhúsið sem nú stendur við Laugarveg mun þannig víkja fyrir nýjum íbúðarhúsum. Örn segir að rísa muni stór og myndarlegur þéttingarreitur. 

„Það var náttúrlega Hekla sem seldi þannig að þeir vita hvenær þeir eiga að fara. Hérna er heimild fyrir allt að 440 íbúðum í þessum fimm byggingum. En þetta verður ekki allt byggt í einu, en hægt og rólega,“ segir Örn og að borgarmyndin breytist því mikið. 

Þannig að Laugavegurinn er að breytast mikið og tengjast miðborginni?

„Algjörlega, og verður tekinn allur í gegn í leiðinni, og gerðar hérna góðar gönguleiðir og hjólaleiðir, eins uppi í Brautarholti. Þannig að þetta verður mikil breyting þegar þetta verður búið.“

Aðspurður segir Örn íbúðirnar í húsunum fyrir allar stéttir fólks. „Við erum með frá 45 fermetrum upp í 270 fermetra og allt þar á milli. Þannig að hérna mun vera spegilmynd af borginni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×