Innlent

„Svartur dagur fyrir dýravelferð á Ís­landi“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarsamband Íslands.
Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarsamband Íslands. Aðsend/Vilhelm

Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) lýsir yfir vonbrigðum og harmar ákvörðun Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra sem veitti fyrr í dag Hval hf. leyfi til veiða á 128 langreyðum. Að mati sambandsins stangast lög um hvalveiðar frá árinu 1949 á við lög um dýravelferð. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá DÍS en eins og áður segir veitti matvælaráðherra Hval hf. leyfi til að stunda veiðar á Langreyðum til eins árs. Sambandið segir þetta vera svartan dag fyrir dýravelferð á Íslandi.

Lög um dýravelferð ekki uppfyllt

Dís bendir á að fyrir liggi afstaða Matvælastofnunar og fagráðs um velferð dýra þess efnis að veiðarnar séu ekki í anda laga um velferð dýra. Þá ítrekar sambandið að ekki sé unnt að veiða stórhvali þannig að ákvæði laga um dýravelferð séu uppfyllt.

Af þeim sökum ítrekar DÍS áður fram komna kröfu um að lög um hvalveiðar verði afnumin eða breytt til nútímahorfs. Dís segja lögin jafnframt löngu úrelt. 

Fagna því að leyfið gildi aðeins í eitt ár

„Hvalveiðar eru algjör tímaskekkja í nútímasamfélagi enda eru veiðar á stórhvölum aðeins stundaðar í einu ríki í heiminum og það af einu fyrirtæki sem heitir Hvalur hf. Þótt það sé í sjálfu sér jákvæð breyting að ekki sé veitt leyfi lengur en til eins árs,“ segir í tilkynningunni.

Dís fagnar því þó að leyfið gildi aðeins í eitt ár í stað fimm eins og vaninn er og að veiðikvótinn sé minnkaður umtalsvert. „Er þetta engu að síður svartur dagur fyrir dýravelferð á Íslandi.“


Tengdar fréttir

Vaktin: Bjarkey gefur grænt ljós á hvalveiðar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur gefið út leyfi til veiða á 128 langreyðum. Bjarkey kynnti ákvörðun sína á ríkisstjórnarfundi í morgun og ræddi að því loknu við fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×