Erlent

Setti sig í sam­band við ráð­gjafa Biden til að mót­mæla gagn­rýni á AGD

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
George og Amal Clooney.
George og Amal Clooney. Getty/WIreImage/Taylor Hill

Leikarinn George Clooney setti sig í samband við ráðgjafa Joe Biden Bandaríkjaforseta á dögunum til að kvarta yfir afstöðu Bandaríkjastjórnar gagnvart ákvörðun Alþjóðaglæpadómstólsins að óska eftir handtökuskipun á hendur Benjamin Netanyahu.

Samkvæmt umfjöllun New York Times setti Clooney, sem hefur verið ötull stuðningsmaður forsetaefna Demókrataflokksins, sig í samband við Steve Ricchetti en sá var lykilmaður í fjáröflun fyrir forsetaframboð Biden fyrir forsetakosningarnar árið 2020.

Clooney er sagður hafa haft samband gegnum textaskilaboð og gert athugasemdir við þá ákvörðun stjórnvalda að gagnrýna Alþjóðaglæpadómstólinn, eftir að yfirsaksóknarinn Karim Khan ákvað að óska eftir því að dómurinn gæfi út handtökuskipun á hendur leiðtogum Hamas og Ísraelsstjórnar.

Heimildarmenn New York Times segja skilaboðin frá Clooney ekki hafa haft nein áhrif á stefnu Bandaríkjastjórnar en það vekur athygli að eiginkona leikarans, mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney, sat í ráðgjafanefnd sem kom að rannsókn saksóknaraembættisins.

Talsmaður Clooney neitaði að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en sagði leikarann enn ákveðinn í því að verða viðstaddur fjáröflunarviðburð fyrir Biden þann 15. júní næstkomandi, þar sem Barack Obama verður einnig meðal gesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×