Erlent

Frederik­sen slegin í mið­borg Kaup­manna­hafnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Mette Frederiksen er sögð slegin eftir árásina.
Mette Frederiksen er sögð slegin eftir árásina. Vísir/EPA

Karlmaður sló Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í miðborg Kaupmannahafnar í dag. Lögregla handtók manninn en ekki er ljóst hvað honum gekk til. Pólitískir bandamenn og keppinautar Frederiksen fordæma árásina.

Forsætisráðuneyti Danmerkur greindi frá árásinni. Frederiksen sé í áfalli eftir uppákomuna en ráðuneytið segist ekki ætla að tjá sig frekar um hana. Atvikið átti sér stað á Kolamarkaðinum í miðborg Kaupmannahafnar, að sögn danska ríkisútvarpsins.

Sjónarvottur segir Reuters-fréttastofunni að ekki hafi séð á Frederiksen eftir árásina. Öryggisverðir hafi fylgt henni burt eftir uppákomuna. Lögreglan rannsakar árásina en hefur ekki tjáð sig frekar um hana.

Aðrir stjórnmálamenn hafa brugðist hart við árásinni að forsætisráðherranum. Kosið verður til Evrópuþings í Danmörku á sunnudag.

„Í lýðræði notar maður orð, ekki ofbeldi,“ skrifaði Trine Bramsen, þingmaður Jafnaðarmannaflokks Frederiksen, á samfélagsmiðlinum X.

Morten Løkkegaard, aðalframbjóðandi Venstre til Evrópuþings, sagði sláandi að einhver hefði slegið Frederiksen. Það væri lýðræðinu nauðsynlegt að fólk gæti rætt saman óháð stjórnmálaskoðunum.

„Ofbeldi og árásir grefur undan opinberri umræðu og þar með lýðræðinu,“ sagði Løkkegaard á sama miðli.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sendi Frederiksen einnig kveðju á X þar sem hann sagði að Norðurlönd væru þekkt fyrir einstaklingsfrelsi, frið, öryggi og sterk lýðræðisleg gildi.

„Það er óásættanlegt að ráðast á kjörinn fulltrúa. Við verðum öll að standa saman og verja gildi okkar,“ skrifaði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×