Innlent

Dómar vegna mann­drápsins í Hafnar­firði þyngdir

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásin var gerð á bílastæðinu við Fjarðarkaup í Hafnarfirði í apríl í fyrra.
Árásin var gerð á bílastæðinu við Fjarðarkaup í Hafnarfirði í apríl í fyrra. Vísir/Vilhelm

Landsréttur þyngdi refsingu karlmanns sem var dæmdur sekur fyrir að stinga pólskan karlmann til bana á bílastæði við Fjarðarkaup í Hafnarfirði og tveggja annarra sem áttu hlutdeild í því. Dómur yfir stúlku sem myndaði atlöguna var mildaður.

Nítján ára karlmaður hlaut tíu ára fangelsisdóm í héraði fyrir að stinga 27 ára gamlan Pólverja til bana í apríl í fyrra. Landsréttur þyngdi refsingu hans í tólf ár. Taldi rétturinn sannað að hann hefði stungið fórnarlambið sex sinnum og að ein stungan hefði dregið það til bana. Manninum hefði ekki getað dulist að líklegasta afleiðing gjörða hans væri að fórnarlambið hlyti bana af.

Tveir ungir félagar árásarmannsins hlutu tveggja ára fangelsisdóma í héraði en refsing þeirra var hækkuð í fjögur ár í Landsrétti. Atlaga þeirra var talin hafa gert fórnarlambinu erfiðara fyrir að verjast seinni atlögu aðalárásarmannsins. Þeim hafi ekki geta dulist að bani gæti hlotist af áframhaldandi atlögu hnífamannsins.

Litið var til ungs aldurs mannanna tveggja og þess að hlutdeild þeirra í árásinni var lítil við ákvörðun refsingarinnar en einnig alvarleika brotsins.

Sautján ára gömul stúlka sem myndaði árásina hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm í héraði fyrir að koma fórnarlambinu ekki til aðstoðar. Hennar dómur var mildaður í sex mánuði skilorðbundna til fimm ára í Landsrétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×