Innlent

Dómur vegna skotárásar þyngdur veru­lega

Árni Sæberg skrifar
Hrannar Fossberg við upphaf aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.
Hrannar Fossberg við upphaf aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Vísir/Vilhelm

Hrannar Fossberg Viðarsson, 24 ára karlmaður, hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi í Landsrétti fyrir skotárás í Grafarholti í febrúar í fyrra.

Hrannar var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot eftir að hann skaut fyrrverandi kærustu sína og mann sem hann lýsti sem „óvini“ sínum með skammbyssu fyrir utan fjölbýlishús við Þórðarsveig í Grafarholti aðfararnótt fimmtudagsins 10 febrúar í fyrra.

Honum var gert að greiða fólkinu sem hann skaut 3,3 milljónir króna annars vegar og 1,2 milljónir króna hins vegar. Þá ber hann allan áfrýjunarkostnað málsins, 2,9 milljónir króna.

Í dómi héraðsdóms sagði að kúla hefði hæft stúlkuna í kviðinn og læknar þurft að fjarlægja hana úr henni í bráðaskurðaðgerð. Læknir sem gaf skýrslu hafi sagt áverka hennar hafa verið lífshættulega. Karlmaðurinn hafi verið skotinn í löppina en kúlan farið í gegn.

Ekki fyrsti dómurinn

Hrannar var dæmdur til átta ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra fyrir árásina. 

Hrannar framdi árásina þegar hann var á reynslulausn af eftirstöðvum fimm ára fangelsisdóms. Honum var gert að afplána 900 daga eftirstöðvar af þeim dómi eftir skotárásina.

Hrannar ræddi við fréttastofu árið 2017 þegar hann sat inni vegna þess dóms. Hann var þá yngsti fangi landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×