Fótbolti

Sækja um leyfi fyrir einum leik í Grinda­vík

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Grindvíkingar vonast til að fá að spila einn leik á Stakkavíkurvelli í sumar.
Grindvíkingar vonast til að fá að spila einn leik á Stakkavíkurvelli í sumar. @umfg

Grindvíkingar hafa sótt um leyfi fyrir því að fá að spila einn leik á heimavelli sínum, Stakkavíkurvelli, í Lengjudeild karla í knattspyrnu í sumar.

Vegna þeirra náttúruhamfara sem hafa staðið yfir í og við Grindavík undanfarið hálft ár leika Grindvíkingar heimaleiki sína í Lengjudeildinni í Safamýri.

Jón Júlíus Karlsson, fyrrverandi farmkvæmdasjóri Grindavíkur, birti hins vegar mynd á samfélagsmiðlinum X í dag þar sem sjá má nýsleginn Stakkavíkurvöll, heimavöll Grindvíkinga. Með myndinni skrifar hann „Það liggur í loftinu,“ sem vísar í slagorð félagsins.

Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, staðfesti svo í samtali við Fótbolti.net að félagið hafi sótt um að fá að spila einn leik í Grindavík í sumar.

„Það fer eftir því hvað þarf að gera í kringum leikinn. Það þarf að vera rýmingaráætlun, þurfum við að hafa rútur til taks? Það er mörgum spurningum ósvarað. Ábyrgð mín sem formaður var að koma liðinu í var og svo aftur heim. Planið er að spila heimaleikina okkar í Grindavík á næsta tímabili,“ segir Haukur í samtali við miðilinn.

Hann bætti einnig við að ef af leiknum yrði, yrði sá leikur spilaður síðsumars. Þar nefnir hann til að mynda leik Grindavíkur gegn Þór Akureyri sem á að fara fram miðvikudaginn 14. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×