Erlent

Írar kjósa til Evrópu­þings

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Michael D. Higgins, forseti Írlands, greiddi atkvæði í Dyflinni í dag.
Michael D. Higgins, forseti Írlands, greiddi atkvæði í Dyflinni í dag. AP/Niall Carson

Næststærstu lýðræðislegu kosningar heims á eftir þeim indversku fara nú fram í öllum 27 aðildarríkjum Evrópusambandsnins. Kosið er um fleiri en sjöhundruð sæti í Evrópuþinginu fram á sunnudag. Írar ganga til kosninga til Evrópuþingsins í dag. Kjörstaðir opnuðu klukkan sjö í morgun og loka þeir klukkan tíu. Írar senda fjórtán fulltrúa á þingið en alls sitja þar 720 fulltrúar frá öllum aðildarríkjum sambandsins.

Útgönguspár kosninganna í Hollandi benda til þess að vinstriflokkar komi til með að bera nauman sigur úr býtum en þjóðernis- og popúlískum flokkum á hægri vængnum sem vilja hola út Evrópusamstarfið innan frá hefur vaxið fiskur um hrygg á þinginu á undanförnum árum. Á Írlandi er til dæmis metfjöldi fjarhægri fulltrúaefna á kjörseðlum bæði í kosningunum til Evrópuþingsins sem og sveitarstjórnarkosningum sem fara einnig fram í dag.

Guardian greinir frá því að húsnæðismál og innflytjendamál séu ofarlega á baugi írskra kjósenda. Húsnæðisskorts gætir um allt Írlandi og leiguverð hækkar. Æsingamenn á fjarhægri vængnum kenni flóttafólki frá Úkraínu og annars staðar frá um stöðuna. Miklar óeirðir geisuðu í Dyflinni og Belfast síðasta haust í kjölfar stunguárásar í grunnskóla í Dyflinni sem drifnar voru áfram af öfgahægri áhrifavöldum.

Ríkisstjórnarflokkarnir þar í landi hafa hert orðræðu sína í garð innflytjenda og hælisleitenda til að reyna að stemma stigu við fjarhægri sveiflu jafnt innanlands sem í Evrópu. Skoðanakannanir sýna að tveir af hverjum þremur kjósendum óska eftir strangari nálgun á innflytjendamálin. 

Fyrstu útgönguspár í Hollandi sem kaus fyrst aðildarríkja í gær benda til þess að hægri- og fjarhægri flokkum eigi eftir að vaxa ásmegin á Evrópuþinginu. Þó tókst bandalag Verkamannaflokksins og Vinstri grænna að vinna flest Evrópuþingsæti landsins. Endanleg úrslit í Hollandi og Írlandi verða ekki ljós fyrr en kosningum er lokið um alla álfu á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Miklar óeirðir í Dublin

Miklar óeirðir hafa verið a götum miðborgar Dublin í kvöld í kjölfar stunguárásar við grunnskóla þar sem að þrjú ung börn særðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×