Íslenski boltinn

„Hann hefur sýnt manni í sumar að hann er ó­reyndur“

Íþróttadeild Vísis skrifar
Jökull Elísabetarson tók við Stjörnunni eftir sex umferðir á síðasta tímabili.
Jökull Elísabetarson tók við Stjörnunni eftir sex umferðir á síðasta tímabili. vísir/diego

Henry Birgir Gunnarsson og Atli Viðar Björnsson klóra sér í kollinum yfir óstöðugleikanum í liði Stjörnunnar í sumar.

Stjarnan er í 7. sæti Bestu deildar karla með þrettán stig eftir tíu leiki. Stjörnumenn hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum, 9-3 samtals, og hafa fengið á sig átján mörk í deildinni. Eftir að Jökull Elísabetarson tók við Stjörnunni í fyrra fékk liðið aðeins á sig fimmtán mörk í 21 deildarleik.  

„Svo finnst manni stundum að ef plan A gengur ekki upp hugsi menn: Hvað nú? Hvað ætlum við að gera núna? Hver á að taka kyndilinn og hver á að leiða þetta. Þetta er rosalega óstöðugt. Tvö mjög ljót úrslit í síðustu leikjum og þegar við höldum að þeir séu komnir upp á lappir hrynja þeir aftur niður,“ sagði Henry Birgir í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar.

Jökull er á sínu fyrsta heila tímabili sem þjálfari í efstu deild og eftir tapið fyrir Vestra í síðustu viku, 4-2, sagði hann að hann sjálfur þyrfti að gera betur.

„Eftir síðasta leik sagði hann að hann þyrfti að stíga upp. Ég held að það sé heilmikið til í því. Hann hefur sýnt manni í sumar að hann er óreyndur og með óreynda menn í kringum sig. Hann er pínulítið að hlaupa á veggi sem hann gerði ekki í fyrra,“ sagði Atli Viðar.

„Það fylgir því að vera ungur þjálfari og það er bara spurning hvernig þú vinnur úr því þegar þú keyrir á veggi. Mér finnst Jökull vera að tækla það vel. Hann er auðmjúkur og segir: Ég þarf að stíga upp. Mér finnst það flott hjá honum,“ sagði Henry Birgir.

Næsti leikur Stjörnunnar er Þór á Akureyri í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins á miðvikudaginn. Næsti deildarleikur Garðbæinga er svo gegn FH-ingum 18. júní.

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á Spotify sem og öllum hlaðvarpsveitum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×