Upp­gjör og við­töl: Fylkir - FH 0-3 | Öruggt hjá FH-ingum í Ár­bænum

Dagur Lárusson skrifar
FH mætti í Árbæ.
FH mætti í Árbæ. Vísir/Anton Brink

Snædís María Jörundsdóttir skoraði tvö mörk og Hildigunnar Ýr Benediktsdóttir eitt þegar FH sigraði Fylki, 0-3, á útivelli í Bestu deild kvenna í dag.

FH-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og sköpuðu mikið af færum og var Snædís María yfirleitt sú sem var að fá færin. Hún átti skot framhjá og skalla yfir áður en hún náði að skora á 6. mínútu leiksins. Þá fékk hún sendingu inn fyrir vörn Fylkis, fór framhjá Tinnu í markinu og kom boltanum í netið.

FH-ingar stýrðu ferðinni það sem eftir var af fyrri hálfleiknum og var staðan 0-1 í hálfleik. Í seinni hálfleiknum spilaðist leikurinn nánast alveg eins. FH-ingar héldu áfram að sækja stíft og náðu að tvöfalda forystu sína á 63. mínútu og aftur var það Snædís sem skoraði en nú var það með skalla. Staðan orðin 0-2.

Það var síðan Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir sem gerði endanlega út um leikinn á 74. mínútu þegar hún fékk boltann inn á teig og kláraði örugglega framhjá Tinnu. Staðan orðin 0-3 og þannig voru lokatölur.

Atvik leiksins

Atvik leiksins var ef til vill fyrsta mark FH en það setti tóninn fyrir restina af leiknum eins og Guðni Eiríksson, þjálfari FH, sagði í viðtali eftir leik. Fylkir sá aldrei til sólar í þessum leik og öll færi leiksins komu FH megin.

Stjörnurnar og skúrkarnir

Snædís María Jörundsdóttir var án eftir stjarna leiksins. Hún skoraði ekki aðeins tvö mörk heldur var hún allt í öllu í sóknarleik liðsins. Skúrkarnir verða að vera allir leikmenn Fylkis og þá sérstaklega fyrir upphafsmínúturnar í leiknum þar sem FH var eina liðið á vellinum.

Dómararnir

Ég tók nánast ekkert eftir dómurunum sem er virkilega gott þeir fá því topp einkunn.

Stemningin og umgjörð

Stemningin og umgjörðin var mjög góð hjá Fylki. Fylkir vildi fá 1000 manns á völlinn, það var markmiðið fyrir leik, en því miður gekk það ekki eftir. Það var samt sem áður mjög góð orka yfir öllu í Árbænum og góð stemning í því fólki sem mætti.

Við gáfum tóninn strax í upphafi leiks

Guðni Eiríksson, þjálfari FH.Vísir/Hulda Margrét

„Ég er heldur betur glaður í dag, þetta var mjög gott,“ byrjaði kampakátur Guðni Eiríksson, þjálfari FH, að segja eftir sigur liðsins gegn Fylki í dag.

„Skipulagið var mjög gott og byrjunin okkar var gríðarlega sterk og við komumst sanngjarnt yfir. Við gáfum í raun tóninn strax í upphafi leiks og ég er mjög sáttur með það hvernig við nálguðumst þennan leik. Við skoruðum þrjú frábær mörk, héldum vel í boltann og héldum hreinu. Þetta er í rauninni allt sem maður vill,“ hélt Guðni áfram að segja.

Guðni var virkilega ánægður með varnarleikinn.

„Já eins og ég segi, leikurinn var virkilega vel settur upp og ég verð að hrósa þeim í liðinu sem koma að varnarleiknum, virkilega vel gert og það var að sem lagði grunninn að þessum sigri.“

Guðni ákvað að vera með liðsfund úti á velli eftir leik en hann vildi hrósa liðinu sínu öllu saman.

„Ég var í rauninni bara að hrósa liðinu fyrir frammistöðuna og líka fyrir að loka leiknum vel sem þær gerðu mjög vel. Við vorum að fara yfir það en síðan líka að ræða það að það er stutt í næsta leik og við verðum að vera tilbúnar í hann líka,“ endaði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, að segja eftir leik.

Fyrst og fremst sár og svekktur

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis.vísir / anton brink

„Maður er bara fyrst og fremst sár og svekktur,“ byrjaði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis, að segja eftir tap liðsins gegn FH í dag.

„Við lögðum mikið upp úr þessum leik og settum hann svolítið upp sem stóran leik fyrir okkur, við vildum fá þrjú stig í dag. Sama hvað varðar umgjörðina, það var mikið gert úr henni,“ hélt Gunnar áfram að segja.

„Þannig já, mér fannst mikið vanta upp á frammistöðuna og 0-3 eru of stórar tölur. Þær auðvitað refsuðu okkur með því að nýta sín færi en við gerðum það ekki. Mörk breyta leikjum og þær skora snemma og það skipti miklu máli. Það var í raunininni alveg slökkt á okkur þarna í byrjun leiks.“

Gunnar segir að liðið sitt þurfi að bæta markaskorunina sem fyrst.

„Mörkin hafa verið að standa á sér. Á undirbúningstímabilinu skoruðum við mikið af mörkum en að undanförnu hafa þau ekki verið mikið að koma og það þarf að bæta. Við höfum samt verið í smá skakkaföllum með okkar helstu leikmennn sem eru sem betur fer að koma hægt og bítandi til baka,“ endaði Gunnar að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira