Erlent

Að minnsta kosti 30 látnir og tugir særðir í á­rásum á skóla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lík þeirra sem létust í árásunum á skólann voru flutt á al-Aqsa sjúkrahúsið.
Lík þeirra sem létust í árásunum á skólann voru flutt á al-Aqsa sjúkrahúsið. AP/Abdel Kareem Hana

Að minnsta kosti 30 manns, þar af fimm börn, létust í loftárásum Ísraelsmanna á skóla Sameinuðu þjóðanna í al-Nuseirat, þar sem fólk á vergangi er sagt hafa hafist við.

Tugir til viðbótar særðust í árásunum.

Frá þessu greina heilbrigðisyfirvöld á Gasa en al-Aqsa sjúkrahúsið í Deir al-Balah er sagt hafa tekið við 30 líkum eftir árásina á skólann og sex til viðbótar í kjölfar árásar á heimili.

Ísraelsher staðfesti á X/Twitter að herþotur hefðu gert árásir á skóla Sameinuðu þjóðanna í al-Nuseirat en hann hefði hýst hryðjuverkamenn sem tóku þátt í árásunum á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn.

Hryðjuverkamönnum sem hefðu haft í hyggju að láta til skarar skríða á næstunni hefði verið útrýmt og mörg skref tekin til að draga úr áhættunni á því að loftárásirnar sköðuðu aðra.

Umræddur skóli var rekinn af UNRWA en samkvæmt skýrslu samtakanna sem birtist í gær hafa 455 Palestínumenn látist í úrræðum á hennar vegum frá 7. október og um 1.500 særst.

Samkvæmt Læknum án landamæra hafa að minnsta kosti 70 látist í umfangsmiklum árásum Ísraelsmanna á miðhluta Gasa frá því á þriðjudag og yfir 300 særst. Karin Huster, ráðgjafi á vegum samtakanna, segir ástandið yfirþyrmandi; fólk liggi alls staðar á gólfinu á al-Aqsa og þangað séu lík flutt í plastpokum.

Ísraelsmenn ítrekðuðu í gær að þeir myndu ekki láta af árásum á meðan viðræður fara fram við Hamas um mögulegt vopnahlé og lausn gísla í haldi samtakanna. Ismail Haniyeh, einn leiðtoga Hamas, sagði á sama tíma að samtökin myndu ekki ganga að neinu samkomulagi nema það fæli í sér endalok aðgerða Ísrael.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×