Innlent

Furða sig á að starfs­fólkið þegi enn­þá

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þær Dagný Rut Magnúsdóttir,Kolbrún Þorsteinsdóttir, Íris Ósk Friðriksdóttir, Þóra Björg Sirrýardóttir, Gyða Dögg Jónsdóttir, Gígja Skúladóttir, Hrafnhildur Jóhannesdóttir og Brynja Skúladóttir lýsa miklu harðræði af hálfu Ingjaldar Arnþórssonar sem gegndi forstöðu á meðferðarheimili að Laugalandi og Varpholti þegar þær dvöldu þar á árunum 1997-2007. Þær segja að starfsfólk hafi orðið vitni að því og furða sig yfir því að það þegi enn. Þær eru meðal viðmælenda í þætti um heimilið í þáttaröðinni Vistheimilin. 
Þær Dagný Rut Magnúsdóttir,Kolbrún Þorsteinsdóttir, Íris Ósk Friðriksdóttir, Þóra Björg Sirrýardóttir, Gyða Dögg Jónsdóttir, Gígja Skúladóttir, Hrafnhildur Jóhannesdóttir og Brynja Skúladóttir lýsa miklu harðræði af hálfu Ingjaldar Arnþórssonar sem gegndi forstöðu á meðferðarheimili að Laugalandi og Varpholti þegar þær dvöldu þar á árunum 1997-2007. Þær segja að starfsfólk hafi orðið vitni að því og furða sig yfir því að það þegi enn. Þær eru meðal viðmælenda í þætti um heimilið í þáttaröðinni Vistheimilin.  Vísir

Konur sem segjast sem unglingar hafa orðið fyrir miklu ofbeldi af hálfu stjórnenda á meðferðarheimili á Laugalandi áður Varpholti, furða sig á þögn annarra starfsmanna. Þá er fyrrverandi forstjóri Barnarverndarstofu sakaður um að hafa reynt að hafa áhrif á vitnisburð um heimilið fyrir opinberri nefnd.

Konur sem voru sem unglingar vistaðar á meðferðarheimilinu Laugalandi áður Varpholti segjast hafa verið beittar alvarlegu ofbeldi af hálfu Ingjaldar Arnþórssonar forstöðumanns þess meðan þær dvöldu þar en heimilið starfaði frá 1997 til 2007. Þá hafi slíkt líka komið fyrir hjá eiginkonu hans sem gegndi einnig forstöðu á heimilinu. Þetta kemur fram í þætti um meðferðarheimilið í þáttaröðinni Vistheimilin á Stöð 2. 

„Hann brjálaðist af því ég sagði eitthvað sem honum mislíkaði fljótlega eftir að ég kom í Varpholt.  Það voru átök þar sem hann dró mig meðfram möl og sat svo yfir mér alla nóttina og gargaði og gargaði,“ segir Gígja Skúladóttir sem var vistuð á heimilinu 1999-2000 14-16 ára  ásamt tvíburasystur sinni.

Eftir að fjöldi kvenna steig fram í Stundinni nú Heimildinni fyrir nokkrum árum ákvað þáverandi félags- og barnamálaráðherra að láta gera úttekt á heimilinu. 

Niðurstaða hennar var að sterkar vísbendingar væru um að þær hefðu orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. Þá hafi eftirlit brugðist. 

Starfsfólkið þegi enn sem sé enn verra

Í úttektinni kemur hins vegar fram að bæði starfsfólk og forstöðuhjónin afneita að ofbeldi hafi átt sér stað. 

Konurnar furða sig á því þar sem starfsfólk hafi orðið vitni að ofbeldi gegn þeim.

„Það varð alveg vitni að einhverju. Ofbeldið var ekki bara þegar þau voru ekki.  Þau voru  t.d. öll með þegar við vorum á fundum í sófanum þar sem mikil niðurlæging gagnvart okkur fór oft fram. Þau þegja ennþá það finnst mér eiginlega verra. Ætli þau telji sig vera í einhverri hættu að vera refsað ef þau segja frá? Það sagði enginn neitt. Þetta var alveg í gangi í tíu ár,“ segir Gyða Dögg Jónsdóttir sem var vistuð á meðferðarheimilinu 15-17 ára frá 2000-2002 ásamt nýfæddum syni sínum. 

Brynja Skúladóttir sem var vistuð á meðferðarheimilinu á árunum 1998-2000 þegar hún var 14-16 ára er á sama máli. 

Starfsfólkið fékk tækifæri til þess að standa með okkur en gerði það ekki þegar skýrslan var gerð. Þau brugðust.

Fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu hafi reynt að hafa áhrif á vitnisburð

Íris Ósk Friðriksdóttir var vistuð 15-17 ára á Varpholti / Laugalandi á árunum 1999-2001. Hún segir að Bragi Guðbrandsson fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu sem átti að hafa eftirlit með stofnunni hafi reynt að hafa áhrif á vitnisburð hennar fyrir úttektarnefndinni. 

Bragi kjörinn í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

„Það er ekki talað um hlut Braga Guðbrandssonarsem var forstjóri Barnaverndarstofu  í þessu máli öllu saman. Hann fékk vissulega tilkynningar um að  ofbeldi ætti sér stað á heimilinu all nokkrum sinnum meðan það starfaði. Þeim er öllum stungið ofan í skúffu,“ segir Íris.

Bragi Guðbrandsson hafði sjálfur persónulega samband við mig meðan á vinnslu þessarar skýrslu stóð. Blessunarlega var ég búin að fara í mitt viðtal því hann var að reyna að hafa áhrif á framburð og vitnisburð minn. Í símtalinu tjáði hann mér að þetta væru falskar minningar, þetta hefði ekki verið svona. Ég átti mjög undarlegt samtal við þennan mann í tæpar fjörutíu mínútur.

Engar sanngirnisbætur, enginn borið ábyrgð

Konurnar segja að lítið hafi gerst í málinu á þeim næstum tveim árum síðan úttektin var gerð. Þær hafi ekki fengið sanngirnisbætur frá stjórnvöldum þrátt fyrir niðurstöðu greinargerðarinnar og þær frásagnir sem þær hafi komið á framfæri. Þá hafi engin verið látinn sæta ábyrgð. 

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri Gæða-og eftirlitsstofnunar velferðarmálaVísir/Ívar

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála segir stjórnvalda að ákveða næstu skref.

„Gæða og eftirlitsstofnun hefur skilað skýrslunni þannig að það þarf í raun að spyrja stjórnvöld að því hvað þau muni aðhafast í framhaldinu,“ segir Herdís. 

Sanngirnisbótafrumvarp hefur legið í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu mánuði en engin niðurstaða er komin fram. 

Ráðuneytið leggi áherslu á að slíkt endurtaki sig ekki

Fréttastofa leitaði eftir svörum hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu  um hvort að einhver muni verða látinn sæta ábyrgð vegna ofbeldisins sem konurnar urðu fyrir á heimilinu meðan þær dvöldu þar. Í svari ráðuneytisins kemur eftirfarandi fram: 

„Ráðuneytið telur mikilvægt að þau sem eiga í hlut taki ákvörðun um framhaldið. Ráðherra kallaði eftir rannsókn á málinu til að fá úr því skorið hvort vistbörn í Varpholti og á Laugalandi hafi sætt óásættanlegri meðferð á tímabilinu. Nú liggja þær niðurstöður fyrir. Vinna mennta- og barnamálaráðuneytisins og áður félags- og barnamálaráðuneytisins undanfarin ár og nú miðar að því að fyrirbyggja að mál sem þetta geti endurtekið sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×